Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ákærður fyrir milljónastuld af björgunarsveit

Mynd með færslu
 Mynd: Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes
Fyrrverandi gjaldkeri björgunarfélags Árborgar hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Umfang brotanna nemur um sautján milljónum króna. Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands eftir helgi.

Grunur vaknaði um brotin þegar gjaldkerinn viðurkenndi í mars fyrir tveimur árum að hafa notað viðskiptakort björgunarfélagsins til að kaupa eldsneyti.  Honum var vikið frá störfum á meðan rannsókn lögreglu stóð og fram kom í tilkynningu frá björgunarfélaginu að reikningar þess síðustu ára yrðu nú skoðaðir gaumgæfilega. Málið yrði unnið í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og lögmann þess. „Félagar í Björgunarfélagi Árborgar líta málið alvarlegum augum og harma að gjaldkerinn fyrrverandi hafi brugðist trausti þeirra með þessum hætti.“

Fljótlega vaknaði grunur um að málið kynni að vera umfangsmeira og það virðist hafa komið á daginn því ákæra héraðssaksóknara er á sextán síðum.

Í ákærunni er maðurinn sagður hafa dregið sér rúmar 14 milljónir á árunum 2010 til 2017 af reikningi björgunarfélagsins. Það er hann sagður hafa gert með reiðufjárúttektum, greiðslu reikninga og með millifærslum út af bankareikningi félagsins inn á eigin reikning og reikning eiginkonu sinnar, samtals 177 tilvik. 

Maðurinn er einnig ákærður fyrir umboðssvik. Í ákærunni er hann sagður hafa misnotað aðstöðu sína sem gjaldkeri og notað kreditkort félagsins 57 sinnum á árunum 2014 til 2016 til að greiða fyrir vörur og þjónustu til eigin nota. Í ákærunni er hann meðal annars sagður hafa látið björgunarfélagið borga fyrir vörur hjá Toyota á Selfossi og áskrift að 365 miðlum sem nú heita Sýn. 

Maðurinn er einnig sagður hafa notað viðskiptareikninga björgunarfélagsins hjá fyrirtækjum eins og Byko og Húsasmiðjunni á árunum 2013 til 2016, alls 18 sinnum.  Maðurinn er sagður hafa látið björgunarfélagið greiða þessa reikninga sem gjaldkeri  sem hafi verið án heimilda og með öllu ótengd störfum hans fyrir björgunarfélagið.

Maðurinn er að lokum ákærður fyrir að nota sex eldsneytiskort félagsins 186 sinnum á sjö ára tímabili, frá árinu 2010 til ársins 2017.  Maðurinn náðist á myndbandsupptöku við notkun á tveimur þessara korta og eitt kortanna sex var hugsað fyrir snjóbíl björgunarfélagsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV