Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn konu í Eyjum

04.09.2018 - 18:31
Mynd með færslu
Vestmannaeyjar Mynd: RÚV
Héraðssaksóknari hefur gefið ákæru á hendur hálfþrítugum Vestmannaeyingi fyrir árás og kynferðisbrot gegn konu í Eyjum fyrir tæpum tveimur árum. Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands 13. september. Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp um miðjan september 2016. Konan fannst nakin og mjög illa leikin í húsgarði, hún var meðvitundarlítil og köld og var flutt með þyrlu á Landspítalann í Fossvogi í Reykjavík. Lögregla taldi að hefði hún ekki fengið aðstoð hefði hún getað dáið.

Maðurinn sem nú hefur verið ákærður sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins um skeið og var síðan sleppt úr haldi þegar kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um framlengingu varðhaldsins var hafnað af dómstólum.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir að ákæran hafi verið gefin út en segist ekki mega greina frá því nákvæmlega fyrir hvað maðurinn sé ákærður vegna þess að þinghald málsins sé lokað.

Málið hefur velkst um í kerfinu um langa hríð. Fyrst um sinn tafðist það nokkuð vegna þess að konan fór úr landi fljótlega eftir árásina og lögreglu reyndist lengi vel erfitt að ná tali af henni. Í fyrrasumar var svo tekin skýrsla af henni ytra.

Rannsókn lögreglunnar í Vestmannaeyjum lauk í október í fyrra, málið fór þá í ákæruferli hjá embættinu og þaðan til Héraðssaksóknara um áramót. Héraðssaksóknari taldi hins vegar að rannsaka þyrfti tiltekin atriði betur og vísaði málinu aftur til lögreglu í lok febrúar. Framhaldsrannsókninni lauk í sumar og þá fór málið aftur til Héraðssaksóknara sem hefur nú gefið út ákæru.