Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ákærður fyrir 38 skilaboð en dæmdur fyrir 22

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að senda unglingsstúlku 22 skilaboð þar sem hann hótaði því meðal annars ítrekað að birta nektarmyndir af henni. Lögreglan á Suðurnesjum braut gegn friðhelgi einkalífs mannsins þegar hún opnaði síma hans án þess að hafa fengið dómsúrskurð. Tæplega fjögur ár eru síðan stúlkan kærði manninn fyrir skilaboðin.

Maðurinn virðist af lestri héraðsdóms vera talsvert eldri en stúlkan. Þau voru kærustupar í einhvern tíma og hún sagði í skýrslugjöf  fyrir dómi að aðrir hefðu vitað af vinskap þeirra. Þegar hún var spurð nánar út í þetta sagði hún að aldursmunur þeirra hefði gert vinskap þeirra óviðeigandi. 

Þegar upp úr sambandinu slitnaði fór maðurinn að senda henni skilaboð. Elstu skilaboðin eru frá því í september 2015 síðustu skilaboðin fékk hún í mars 2016. Þann dag fór hún á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur manninum. Hún sagði lögreglumönnum að fyrrverandi kærasti væri að hóta að setja nektarmyndir af henni á netið og væri búin að kúga hana með því að hóta að sjálfsvígi. Hún væri „á barmi taugaáfalls“.

Héraðsdómur féllst á að maðurinn hefði í 22 skilaboðum af 38 sýnt stúlkunni yfirgang og ruddalegt og ósiðlegt athæfi. Dómurinn tók engu að síður fram að ekkert hefði komið fram um að maðurinn hefði dreift myndunum.  Hann var síðan sýknaður af því að hafa stofnað bloggsíðu þar sem fjallað hefði verið um hana í óþökk hennar.

Héraðsdómur horfði til þess að maðurinn hefði sent stúlkunni skilaboð fyrir sumarið 2017 þar sem hann bað hana afsökunar. Þá lýsti hann því yfir skriflega að hann væri reiðubúinn til að láta stúlkuna algjörlega í friði næstu sex mánuði.  Hann myndi hvorki koma nálægt heimili hennar né veita henni eftirför.

Manninum var gert að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í miskabætur. Dómurinn sagði að brot hans hefðu verið til þess fallin að valda henni ótta og angist.  Félagsráðgjafi sem gaf skýrslu fyrir dómi sagði að stúlkunni hefði liðið mjög illa og að hún glímdi enn við margvíslegar afleiðingar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV