Ákærðir fyrir amfetamínframleiðslu í sumarhúsi

31.08.2019 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir að framleiða átta og hálft kíló af amfetamíni í Borgarfirði. Tveir þeirra eru með þunga dóma á bakinu fyrir fíkniefnasmygl. Ásamt þremur til viðbótar eru þeir einnig ákærðir fyrir stórfellda kannabisrækt í Þykkvabæ.

Fyrst var greint frá málinu í fjölmiðlum 8. júní. Daginn áður höfðu fjórir verið handteknir, að sögn lögreglu grunaðir um framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti.

Fréttastofa sagði skömmu síðar frá því að tveir hinna handteknu væru Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson, sem hlutu fyrir um áratug níu og hálfs og sjö ára fangelsisdóma í svokölluðu Pólstjörnumáli. Það snerist um innflutning á tugum kílóa af fíkniefnum til Fáskrúðsfjarðar og var þá stærsta fíkniefnasmygl Íslandssögunnar.

Ákæra í málinu frá í sumar var gefin út í fyrradag. Hún er í fimm liðum á hendur sex manns. Í einum þeirra eru Einar og Alvar ákærðir ásamt þriðja manni fyrir að hafa staðið saman að framleiðslu á átta og hálfu kílói af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.

Í öðrum ákærulið eru þremenningarnir ákærðir ásamt þremur öðrum, tveimur körlum og konu, fyrir að rækta yfir 200 kannabisplöntur í útihúsi við bæ á Suðurlandi. Hinir þrír ákæruliðirnir varða minniháttar fíkniefna- og vopnalagabrot og steraeign.

Gerð er krafa um upptöku á ókjörum af tækjum og tólum sem notuð voru við ræktunina og amfetamínframleiðsluna - gaskútum, lömpum og viftum í tugatali, ofni, tölvum, leisermælitækjum, mælikönnum, sýrustigsmælistrimlum, öryggisgleraugum og mun fleiru. Þá krefst saksóknari einnig að um tvær milljónir í reiðufé verði gerðar upptækar, sem og Toyota Corolla-bifreið.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi