Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákærð fyrir að gera út vændiskonur

14.09.2019 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Par á fertugsaldri hefur verið ákært fyrir hagnýtingu vændis þriggja kvenna frá Suður-Ameríku. Þau neita sök í málinu.

Parið, íslenskur karlmaður og kona af perúskum uppruna með íslenskan ríkisborgararétt, var handtekið í nóvember 2017 eftir húsleit lögreglu á þremur stöðum í Reykjavík. Í tveimur húsanna sem leitað var í voru þrjár konur á þrítugsaldri frá löndum suður-ameríku og kviknaði strax grunur um að þær væru þolendur mansals. Lagt var hald á ýmis gögn við húsleitirnar, meðal annars umtalsverða fjármuni sem talið var að væri afrakstur vændisstarfseminnar. Þolendur mansalsins sneru allar til síns heima eftir skýrslutökur hjá lögreglu.

Í umfjöllun fréttastofu á sínum tíma kom fram að maðurinn sem er grunaður í málinu hafi starfað hjá Barnavernd Reykjavíkur, en ekkert bendir til þess að hann hafi verið viðriðinn vændisstarfsemina á meðan hann starfaði þar.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að ákæra hafi verið gefin út á hendur parinu sem nú er búsett á Spáni. Samkvæmt ákærunni hafði konan samband við þolendurnar og útvegaði þeim flugmiða til Íslands. Karlmaðurinn, sem fjármagnaði hluta starfseminnar, tók á móti konunum í Keflavík og ók þeim að húsi í Fiskakvísl í Reykjavík þar sem vændið fór fram að mestu, en það fór einnig fram í húsnæði á Grensásvegi og í Vesturbænum.

Í sameiningu gerði parið konurnar út til vændis og var starfsemin auglýst á netinu og í Fréttablaðinu. Þau neita bæði sök en eiga yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi verði þau fundin sek.

Á undanförnum tíu árum hefur einu sinni verið sakfellt fyrir hagnýtingu vændis en 16 slík mál komu til rannsóknar lögreglu á tímabilinu. Í fyrra var karlmaður sýknaður af ákæru um að hafa stuðlað að vændisstarfsemi með því að leigja konu þrjár íbúðir sem hún nýtti undir vændisstarfsemi. Var það fyrsta mál sinnar tegundar á Íslandi.