Ákærð fyrir að borga ekki milljarð í skatt

02.08.2019 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Systkinin sem kennd eru við Sjólaskip eru ákærð fyrir meiriháttar skattsvik. Samkvæmt ákæru töldu þau ekki fram rúma fjóra milljarða króna og komu sér og félögum sínum undan því að borga milljarð í skatt.

Héraðssaksóknari hefur gefið út fimm ákærur á hendur fjórum systkinum vegna meiriháttar skattalagabrota. Systkinin tengjast fyrirtækinu Sjólaskipum og hafa verið kennd við það. Alls hljóða meintar vanframtaldar tekjur systkinanna og félaga þeirra upp á nærri 4,4 milljarða króna og vangoldnir skattar nema einum milljarði, samkvæmt ákærunni.

Bræðurnir ákærðir vegna félaga á Kýpur

Stærsta einstaka brotið snýr að félögunum Kenora Shipping, Seadove Shipping og Fishing Company Beta. Þau voru öll skráð á Kýpur en stunduðu fiskveiðar við Namibíu. Bræðurnir Haraldur Reynir og Guðmundur Steinar Jónssynir eru ákærðir fyrir að hafa ekki talið fram tekjur, gjöld og önnur atriði sem gátu haft áhrif á skattlagningu félaganna. Vantaldar tekjur voru rúmir þrír milljarðar árin 2005 og 2006 samkvæmt ákærunni og því ekki greiddir af þeim skattar upp á rúmar 800 milljónir króna. Þeir voru daglegir stjórnendur félaganna og endanlegir eigendur að 27,5 prósenta hlut hvor.

Sökuð um fimmtán til 71 milljónar króna brot

Systkinin eru líka ákærð hvert um sig fyrir vanframtaldar tekjur. Haraldur er ákærður fyrir að koma sér hjá greiðslu 71 milljónar króna í skatta og Guðmundur Steinar fyrir 66 milljóna króna undanskot. Systur þeirra eru einnig ákærðar, Berglindi Björk Jónsdóttur er gefið að sök að standa ekki skil á 40 milljóna króna skattgreiðslum og Ragnheiður Jóna er ákærð fyrir fimmtán milljóna króna skattsvik. Brotin snúa að því að telja ekki fram greiðslur frá fyrirtækjum, viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðum Kaupþings og gengishagnað.