Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aka jafnmikið og 56.000 heimilisbílar

29.01.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Erlendir ferðamenn aka samanlagt jafnmikið og 56 þúsund heimilisbílar Íslendinga. Þetta leiðir nýleg rannsókn í ljós. Framkvæmdastjóri hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar segir brýnt að bæta upplýsingagjöf til ferðamanna, merkingar og vetrarþjónustu við vegi.

Ein komma þrjár milljónir erlendra ferðamanna sem komu hingað 2018 leigðu sér bíl. Þetta er meirihluti ferðamanna eða 60 prósent. Þetta leiðir rannsókn Rannsókna og ráðgjafar ferðaþjónustunnar í ljós. Flestir aka ferðamennirnir á sumrin en þó var hátt í helmingur á bílaleigubíl yfir vetrarmánuðina. Meðalakstur erlendra gesta 2018 var tæpir sextán hundruð kílómetrar. Áætlað er að erlendir ferðamenn hafi alls ekið bílaleigubílum 660 milljónir kílómetra og jafngildir það meðalakstri 56 þúsund heimilisbíla Íslendinga. Rögnvaldur Guðmundsson vann að rannsókninni.

„Niðurstaðan er náttúrulega sú að umferðin hefur aukist gríðarlega. Til dæmis umferð ferðamanna hefur sjöfaldast á þjóðveginum á bílaleigubílum á þessum átta árum. Hún var sjö sinnum meiri 2018 en 2010. Það sem vekur líka athygli er hversu gríðarlega hátt hlutfall akstursins við Lómagnúp eru ferðamenn. Við fáum að 2018 sé yfir sjötíu prósent umferðar við Lómagnúp ferðamenn á bílaleigubílum,“ segir Rögnvaldur.

Þrjátíu prósent ferðamanna koma til Íslands vegna hringvegarins. 

„Þannig að hann er orðinn aðdráttarafl í sjálfu sér, svipað og Gullfoss og Geysir. Ég held að við höfum vanmetið vægi hringvegarins í hugum ferðamanna,“ segir Rögnvaldur. 

Hann telur að bæta þurfi upplýsingagjöf til ferðamanna og nýta snjalltækni. Einnig að bæta merkingar. 

„Og svo er auðvitað þetta að þetta er árstíðabundið hversu mikil þjónustan þarf að vera við vegina. Við sjáum það á slæmum dæmum undanfarnar vikur, slys og fleira. Það þarf virkilega að huga að þessu,“ segir Rögnvaldur.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV