Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Airwaves: Halda í töfrana og rúlla á núllinu

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Airwaves: Halda í töfrana og rúlla á núllinu

06.11.2019 - 11:30

Höfundar

„Þetta er ótrúlegur dagur þegar Airwaves fer af stað,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu Live. „Ég er búinn að halda tónleika í 25 ár, og hef flutt inn Ed Sheeran og Justin Timberlake. En það er eitthvað við Airwaves. Hátíðin er ekki byrjuð en þú ferð niður í bæ og þú skynjar strax stemninguna.“

Ísleifur er nú á leið á Grund þar sem Hjaltalín og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands opna hátíðina. „Það er svo mikið af töfrandi stundum yfir Airwaves, maður veit bara að næstu fjóra daga verður endalaust af mómentum sem maður gleymir aldrei, hlaupandi á milli staða, uppgötvandi eitthvað nýtt,“ segir Ísleifur í samtali við Morgunútvarpið. Klukkan sjö verða svo tónleikar á tíu stöðum niðri í bæ. „Þetta er ótrúleg tilfinning fyrir okkur sem stöndum að þessu, gaman að sjá þetta gerast, loksins eftir árs vinnu.“ Miklar sviptingar hafa verið á hátíðinni undanfarið og Sena Live tók við henni fyrir tveimur árum. Ísleifur segir sitt fólk vera að reyna að detta inn á rétta formúlu fyrir hátíðina. „Halda í töfrana í Airwaves, við viljum ekki gjörbreyta hátíðinni og þetta er þekkt og virt vörumerki alþjóðlega. Við erum að reyna að halda í töfrana og láta þetta ganga fjárhagslega. Þetta skiptir alla miklu máli, Reykjavíkurborg, ferðabransann og íslenska tónlistarbransann. Þetta er held ég að koma hjá okkur, við erum að nálgast að Airwaves geti rúllað á núlli.“

Af hverju vilja menn halda hátíð sem gengur á núllinu? „Þetta var sett af stað af hugsjón. Þetta gengur dálítið á styrkjum, frá Icelandair og Reykjavíkurborg og fleirum, og hefur verið til í 20 ár. Fór aðeins út í skurð fjárhagslega. Það var hringt og okkur rann blóðið til skyldunnar að halda þessu lifandi. Þetta gengur upp hjá okkur, af því við erum tónleikahaldari þannig að þetta fellur inn hjá okkur. Það þarf ekki að halda uppi sér starfsliði bara fyrir Airwaves. Svo eru jákvæð hliðaráhrif fyrir okkur, betri sambönd við erlenda umboðsmenn og svona. Þannig við erum fín ef þetta er rekið á núlli.“ Ísleifur segir miðasöluna betri en á sama tíma í fyrra og að yfir helmingur gesta komi frá útlöndum, þar af um 500 manns frá fjölmiðlum og útgáfufyrirtækum.

Á sama tíma og Iceland Airwaves er haldin verður Hlemmur Square með litla hliðarhátíð sem nefnist Airwhales, sem Ísleifur hefur verið mjög gagnrýninn á. „Ég held að þetta dæmi sig sjálft að miklu leyti, að halda á sama tíma og með eiginlega eins nafn. Gerðu þína eigin hugmynd, ekki reyna að fara ofan í okkur.“ Aðstandendur Airwhales hafa meðal annars nefnt miklar hömlur á „offvenue“-tónleikum sem ástæðu fyrir sinni hátíð en Ísleifur segir að sú mjög svo umfangsmikla dagskrá sem var hafi næstum gengið af hátíðinni dauðri. „Ef þú ert að berjast fyrir gömlu offvenue-stemmingunni, þá ertu að berjast fyrir því að Iceland Airwaves virki ekki.“

Iceland Airwaves hefst í dag og stendur fram á laugardag. Sigmar Guðmundsson og Hulda Geirsdóttir ræddu við Ísleif B. Þórhallsson í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Átta erlend á Airwaves sem alla ættu að kæta

Menningarefni

Trommararnir alltaf seinir á næsta gigg

Tónlist

Booka Shade og samverkamaður Hatara á Airwaves

Tónlist

Mac Demarco snýr aftur á Iceland Airwaves