Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Áin grefur sig framhjá nýrri hrauntungu

05.10.2014 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný hrauntunga þrengir nú að Jökulsá á Fjöllum, en áin grefur sig framhjá hrauninu, segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, sem er við gosstöðvarnar. Nýja hraunið er um 50 ferkílómetrar en stækkar hægt.

Um sjötíu jarðskjálftar hafa mælst við öskju Bárðarbungu síðasta sólarhring, 38 frá miðnætti, sex þeirra stærri en fjórir.

Skjálftavirkni í Bárðarbungu hófst af krafti laugardaginn 16. ágúst og hefur staðið linnulaust í sjö vikur. Fyrir fimm vikum tók að gjósa í Holuhrauni en nokkuð hefur dregið úr gosinu. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur kom að gosstöðvunum ásamt fjórum öðrum vísindamönnum á fimmtudag, þá höfðu vísindamenn ekki verið þar í nokkra daga. Hraunið er orðið um 50 ferkílómetrar en stækkar hægt.

„Það er tiltölulega stöðugt, hrauntjarnir í miðgígnum Baug sem krauma og svo rennur stöðugt úr þeim hraun sem dreifir úr sér á söndunum. Það er sem sagt álma, sem er sunnan við álmuna sem síðast þrengdi að jökulsá, sem í gær var allt að því búin að loka fyrir Jökulsá en áin grefur sig bara meðfram. Í gær var ekki nema fimm metra stokkur milli bakkanna og hraunsins,“ segir Ármann.

Mengunar frá gosinu gæti orðið vart norður og vestur af eldstöðvunum í dag. Ármann segir að landverðir og lögregla sem voru í skálanum í Dreka í nótt, hafi þurft að yfirgefa hann vegna gasmengunar frá gosinu.