Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áhyggjur af minni notkun endurskinsmerkja

11.11.2019 - 19:27
Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan hefur áhyggjur af minni notkun endurskinsmerkja hjá börnum og fullorðnum nú í haust miðað við mörg ár þar á undan. Ekið var á barn á leið í skóla í Breiðholti í morgun.

Lögreglan hefur áhyggjur af minni notkun endurskinsmerkja hjá börnum og fullorðnum nú í haust miðað við mörg ár þar á undan. Ekið var á barn á leið í skóla í Breiðholti í morgun.

Lögreglan minnir reglulega á nauðsyn þess að nota endurskinsmerki. Til að mynda hafa foreldrar markvisst verið hvattir til þess að tryggja endurskinsnotkun barna sinna, en það virðist ekki alltaf duga til. Hvernig er tilfinningin hjá lögreglu um notkun endurskinsmerkja í dag?

„Hún er ekki nógu góð og okkur finnst hún hafa dalað þetta haustið miðað við mörg ár á undan. Þetta hefur oft gengið í sveiflum. Stundum sér maður fjölda fólks með endurskin en þetta haustið, því miður, virðist það vera mjög fátítt að sjá börn með endurskin og hvað þá fullorðna,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild.

Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu voru erfiðar þegar börn voru á leið til skóla í morgun, í myrkri og rigningu en víða byrgði dimm rigning ökumönnum sýn. Við Álfhólsskóla í Kópavogi var allur gangur á því hvort börn sæjust almennilega í myrkrinu á leið í skólann.

„Þau mættu vera miklu duglegri að nota endurskinsmerki,“ segir María Hróarsdóttir, starfsmaður í Álfhólsskóla, sem stóð gangbrautarvaktina í morgun.

Hvað með ökumennina, eru þeir tillitssamir?

„Já, svona mest megnis.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur slysatíðni gangandi vegfarenda ekki aukist í haust. Við aðstæður eins og sköpuðust í morgun sé þó vert að hafa áhyggjur.

„Þetta er öryggisbúnaður. Gangandi sér ökutæki með bílljós og einhvern veginn finnst okkur sem gangandi að allir sjái okkur af því við sjáum umhverfið vel. En staðreyndin er sú að við aðstæður eins og í morgun, að við sjáumst bara ekki neitt. Malbikið gleypir okkur gjörsamlega, og meðal annars var ekið á ellefu ára barn á leið til skóla í morgun. Sem var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar, en sem betur fer þá teljum við að það hafi ekki slasast illa,“ segir Guðbrandur.