Áhyggjur af erlendum ferðamönnum vegna E.coli

Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Sextán börn hafa nú greinst með alvarlega e. coli-sýkingu, þar af fjögur í dag. Fjöldi erlendra ferðamanna lagði leið sína í Efstadal tvö þar sem sýkingin er talin eiga upptök sín. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands segir það áhyggjuefni og hafa ferðaþjónustuaðilar reynt að hafa samband við fólkið. Aldrei hefur sambærilegur faraldur brotist út hér á landi.

Fjögur smituð á aldrinum eins til fjögurra ára

Landlæknisembættið tilkynnti síðdegis að fjögur börn til viðbótar hefðu greinst með e. coli. Þau eru á aldrinum 14 mánaða til fjögurra ára. Ekki er enn vitað hvernig þau smituðust. Um þriðjungur starfsmanna á bænum Efstadal, þar sem sýkingin er talin eiga upptök sín, var rannsakaður í dag en bakterían fannst ekki í neinum þeirra. 27 sýni voru greind í dag. 

Engin e.coli í ísnum eða hamborgurunum

Heilbrigðiseftirlitið tók fyrst sýni úr hamborgurum og ís í Efstadal fyrir um tveimur vikum, sem bæði voru neikvæð hrein. Þegar fleiri börn greindust með sýkinguna fór Matvælastofnun ásamt heilbrigðiseftirlitinu á staðinn, 4. júlí. Þá fannst fyrst e. coli-smit, í saur kálfa.

„Þá er ákveðið að loka fyrir kálfastíuna og þá er tekið sýni af skít úr kálfastíunni. En það er í raun ekki fyrr en á sunnudeginum eftir að það eru fleiri börn að sýkjast,” segir Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. 

Reynt að ná sambandi við útlendinga sem komu í Efstadal

Sýkingin getur borist með saur, þvagi, munnvatni og líkamsvessum úr dýrum og fest á nánast hverju sem er. Því er ekki víst að það takist nokkurn tímann að finna endanlega smitleið barnanna. Á Íslandi eru nokkrir veitingastaðir í návígi við húsdýr sem sumir njóta mikilla vinsælda.

Sigrún bendir á að í Efstadal hafi komið fjöldi erlendra ferðamanna á tímabilinu sem um ræðir og segir það verulegt áhyggjuefni. 

„En það hefur verið sent á ferðaþjónustuaðila orðsendingu um að reyna að hafa samband við þá erlendu aðila sem hafa verið þarna.”

16 börn veik enn sem komið er

Alls hafa nú 16 börn greinst með e. coli og fá þau öll aðhlynningu á Barnaspítala Hringsins, sum liggja þar þungt haldin. Talið er að sýkingin hafi byrjað í Efstadal 9. eða 10. júní, þó að það gæti verið lengra síðan. Það tekur að minnsta kosti þrjá daga að veikjast frá því að smit verður. 

Þetta er í fyrsta sinn sem faraldur af þessu tagi gengur yfir Ísland og hafa heilbrigðisyfirvöld og eftirlitsstofnanir miðlað upplýsingum til almennings daglega. Matís, sem sér um endanlega greiningu sýnanna, hefur biðlað til viðskiptavina sinna að takmarka sýnatöku þar sem starfsmenn hafi ekki undan. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi