Áhugavert samstarf Jonah Hill og Adidas

Mynd: GQ / YouTube

Áhugavert samstarf Jonah Hill og Adidas

20.01.2020 - 15:15
Í síðustu viku tilkynnti leikarinn og handritshöfundurinn Jonah Hill væntanlegt samstarf sitt við fatamerkið Adidas. Þeir hafa verið öflugir í samstarfi við fræga fólkið og meðal annars unnið með stjörnum á borð við Beyoncé og Kanye West.

Jonah Hill er líklegast hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í kvikmyndum á borð við Superbad, Wolf of Wallstreet og War dogs og ekki endilega allir sem hugsa um hann sem einhvers konar tískufyrirmynd. En það gerir Karen Björg Þorsteinsdóttir, tískuspekingur Núllsins, svo sannarlega og hún ræddi þetta samstarf í tískuhorni vikunnar.

Lítið er orðið opinbert um línuna sem Hill mun hanna með Adidas en Karen segir hann aðallega vera þekktan fyrir að rokka götutíska og því líklegt að hún verði í þeim anda. Hann skrifaði nýlega og leikstýrði kvikmyndinni Mid90s sem fjallar um hjólabrettakappa á miðjum tíunda áratugnum og að sögn Karenar eru „allir í geggjuðum fötum þar.“ 

Karen spáir því að línan verði óformleg, strigaskór, joggingbuxur og bolir eru allt eitthvað sem líklegt er að verði í boði og þá telur hún að línan verði litrík. Lógóið sem fylgir samstarfinu er hálfgerð hrafnasparks útgáfa af Adidas merkinu góðkunna og í það les hún að um verði að ræða óreiðukenndan götufatnað eins og Hill sjálfur klæðist mikið. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest

Fátt annað er vitað um þetta áhugaverða samstarf en aðdáendur Jonah Hill geta farið að gera sig tilbúna. 

Þú getur hlustað á tískuhorn vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan.