Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhrif vaxtalækkana eiga enn eftir að koma fram

06.11.2019 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Seðlabankastjóri vonast til þess að áhrif stýrivaxtalækkana muni koma betur í ljós á næsta ári og skila sér í fleiri störfum. Stýrivextir eru í sögulegu lágmarki og eru nú 3% eftir að bankinn tilkynnti um 0,25% lækkun í morgun. Vextirnir hafa lækkað um 1,5% frá því í vor.

„Efnahagshorfur á næsta ári hafa aðeins versnað frá því sem gert var ráð fyrir. Síðan hefur verðbólga verið að lækka hraðar heldur en gert var ráð fyrir. Það í rauninni gerir það að verkum að við getum lækkað vexti núna,“ segir Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri.

Aðspurður hvort megi gera ráð fyrir því að vextir bankans hafi nú náð jafnvægi, eða frekari sveiflur séu á döfinni, segir hann það eiga eftir að koma í ljós.

„Það tekur einhvern tíma fyrir vaxtalækkanir að koma fram. Þær þurfa að koma fram í nýjum útlánum, nýjum verkefnum og svo framvegis. Það tekur einhvern tíma að koma því fram. Við erum búin að koma verðbólgu á markmið og munum halda henni þar. Við erum þess fullviss að þær vaxtalækkanir sem við höfum framkvæmt á þessu ári muni skila sér á því næsta. Við séum að ná að beita peningastefnunni núna til þess að skapa ný störf.“

Framboð fasteigna ekki í samræmi við eftirspurn

Ásgeir segir að áætlanir ríkisstjórnarinnar í fjárfestingum muni einnig hafa sín áhrif.

„Þetta eru töluvert miklir peningar sem eru að fara út í kerfið, 80-90 milljarðar. Það örvar hagkerfið, sem er í sjálfu sér jákvætt á þessum tíma en veldur því að við þurfum ekki að lækka vexti eins mikið og annars. Þetta hefur töluvert mikil áhrif á ráðstöðvunartekjur heimilanna.“

Aðspurður um almennar horfur í efnahagslífinu, staðan í byggingariðnaði og á fasteignamarkaði, segir Ásgeir að fasteignamarkaðurinn sé farinn að hægja á sér.

„Mögulega hefur framboð ekki beint verið í samræmi við það framboð sem hefur verið til staðar. Eins og áhersla á dýrar íbúðir, þegar þörfin er á einhverju öðru. Það virðist þó ekki vera þannig gríðarlega mikið vandamál. Við höfum mekki séð mikla aukna skuldsetningu í kerfinu.“