Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áhrif kyrrsetningar meiri hjá Icelandair

18.08.2019 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Áhrif kyrrsetningar Boeing MAX-vélanna hefur meiri áhrif á Icelandair en önnur flugfélög, því þær voru svo stór hluti flotans segir forstöðumaður greiningar Capacent. Sextíu flugfreyjur, sem höfðu fengið vilyrði um störf í september, fá þau ekki því flugáætlun var breytt.

Fleiri sæti verða í boði til Evrópu samkvæmt nýrri flugáætlun til ársloka sem kynnt var í fyrradag. Hins vegar fækkar sætum til Norður-Ameríku en búið var að fækka áfangastöðum þar og þá verður ekki flogið til Portland í vetur. Icelandair ætlar að draga úr áherslu á skiptifarþega þ.e. þá sem millilenda hér en auka áherslu á ferðir hingað. 

900 flugfreyjur eru fastráðnar hjá Icelandair og í sumar hafa verið 500 til viðbótar í sumarafleysingum til ágústloka. Búið var að gefa 60 þeirra vilyrði fyrir starfi út september. Það var dregið til baka fyrir helgi út af nýju áætluninni. 

Í hálfsársuppgjöri félagsins frá 1. ágúst var gert ráð fyrir kyrrsetningu Boeing Max vélanna til loka október. Í tilkynningu félagsins á föstudaginn eru Max vélarnar ekki inni á þessu ári. Fjárhagsleg áhrif nema meira en 140 milljónum dollara. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Snorri Jakobsson forstöðumaður greiningardeildar Capacent.

Snorri Jakobsson forstöðumaður greiningar Capacent gerði verðmat á félaginu eftir uppgjörið: 

„Grunnreksturinn ef við horfum fram vandamáli Boeing Max hann var örlítið að batna. Það er svona ljósir punktar. Þeir mættu vera sterkari. En ef þetta Boeing Max vandamál heldur áfram að þá er það mjög slæmt fyrir Icelandair. Þú veist ekki hvaða bætur þeir munu fá fyrir þetta allt saman og það hefur svo ennþá meiri áhrif á reksturinn og rekstrarafkomuna. Boeing Max var ógurlega stór hluti af heildarflugflota Icelandair. Svo þetta er að hafa bara hlutfallslega mikil áhrif á Icelandair og meiri heldur en flest önnur flugfélög sem að voru að fá Boeing Max vélar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Boeing Max vélarnar bíða kyrrsettar á Keflavíkurflugvelli.