Áhorfandi leikur gagnrýnanda

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Áhorfandi leikur gagnrýnanda

09.01.2020 - 12:56

Höfundar

Það ríkir hressileg anarkía hugmynda í leiksýningunni Engillinn sem sýnd er á fjölum Þjóðleikhússins.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Finnur Arnar Arnarsson leikmyndahöfundur fann kassa. Í þeim kassa voru bækur, sýningaskrár, handrit, uppköst að leikverkum, fyrirlestrum, ljóð. Lífsstarf eins manns í kassa, myndlistarmannsins og leikskáldsins Þorvalds heitins Þorsteinssonar. Úr þessum heimildum hefur Finnur Arnar nú ofið sýninguna Engilinn sem frumsýnd var í öðrum kassa, Kassanum í Þjóðleikhúsinu, 21. desember.

Sýningin hvílir á þremur megin textabrotum í bland við ýmiss örverk, ræður, söngva en vísar einnig hljóðrænt og myndrænt í innsetningar og gjörninga Þorvalds. Enda kom Þorvaldur víða við í sköpun sinni. Hann var í leikverkunum lærisveinn Guðmundar Steinssonar að því marki að hann hlustaði líkt og lærifaðirinn eftir talmáli hvunndagsins en reyndi eða náði aldrei, eins og Guðmundur, að stækka samtölin í beitta samfélagsgagnrýni. Þorvaldur lék sér sem sagt gjarnan að klisjunum sem  hafa völd yfir máli okkar og hugsun.  Verk hans, samtölin oft ein stillimynd frekar en gjörðir, skopmyndir af fólki, oft ljúfar, viðfelldnar eins og hann sjálfur, segja okkur kannski helst hvað við erum nú öll skemmtilega vitlaus. Það væri bara móðgun við hið látna skáld að reyna að troða þeim í einhverja reglu eða fagurfræðilega kima eins og hann barðist hart gegn öllu slíku  síðustu árin sem hann lifði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Enda gerir Finnur Arnar það ekki. Hann veðjar á það ótamda, stundum næstum óskiljanlega, eins og morðin í byrjun sem vísa sennilega í gjörninginn: Hver deyr flottast. En þar fellur fyrir kúlnahríð  leikarahópur fyrir framan hlaða af nytjahlutum  sem söfnuðust reyndar í gám í Sorpu í nóvember og eru nú orðnir að leikmynd, leikmunum og vísa í annan gjörning Þorvaldar: Tapað. Fundið. Því næst brýst inn og þrammar niður ofurháan járnstiga til vinstri á sviðinu þunglamalegur reykkafari með grímu og rauða bók í hendi. Einn úr hópnum raknar úr rotinu , Guðrún Snæfríður, og hefur nú lifað af bruna ekki skothríð! Hann réttir henni handrit og hún fer að lesa og upphefst þá eitt af skemmtilegum samtölum kvöldsins um hlutverk slökkviliðsins í samfélaginu.  Að því loknu hverfur reykkafarinn úr sögu og  kviknar þá einnig á hinum leikurunum, leikstjóri fær handrit í hendur og byrjað er að feta sig eftir því. Er þetta Finnur Arnar eða Þorvaldur í gervi reykkafarans, spyr áhorfandi sig. Og úr hvaða brunarústum rísa hinir dauðu? En hvað um það. Reykkafarar í fullum skrúða gegna áfram af og til stuðningshlutverki í sýningunni og eiga eina  ískrandi fyndna innkomu sem þrír gítarleikarar í þrumandi músíkatriði hönnuðu af Pétri Ben og Elvari Geir Sævarssyni undir textanum: „Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór.“

Finnur Arnar hefur sagt að hann leggi til grundvallar í sviðsetningunni hlutverkin, búningana sem mönnum er stöðugt  þröngvað í. En leikmyndin þar sem heimur leikhússins baksviðs er í forgrunni í fyrstu (leikarar að æfa, fara í búninga, bíða) þar til hinn heimurinn, leiksviðið sjálft, opnast svo snilldarlega gefur til kynna aðra grunnhugmynd til viðbótar: Hvenær eru leikarar að  leika og hvenær eru leikararnir ekki að leika? Hvað er leikur, hvað er veruleiki?  Sú hugmynd gengur ekki upp lengi framan af, kannski vegna þess að þegar búið er að staðsetja leikara í leikmynd baksviðsins frammi fyrir okkur einföldum áhorfendum þá sjáum við einfaldlega bara leikara að leika. Kannski vegna þess að Finni Erni tekst ekki sem leikstjóra að skapa nægilega skörp skil milli mannverunnar og hlutverks leikarans en þó kannski fyrst og fremst vegna þess að megintexti Þorvalds í fyrri hluta, sem leiðir inn í hugmyndina, er alls ekki nægilega skýr í þá veru. Í sjálfu sér gerir þetta ekkert til.  Því sú hressilega anarkía  hugmyndanna sem ríkir frá upphafi til enda í sýningunni  er fyrst og fremst styrkur hennar og var mér mikil skemmtun.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Leikararnir Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir leika öll fjölda hlutverka og birtast okkur ofur eðlilega og áreynslulaust með spaugi og alvöru, talandi, syngjandi, dansandi í hinum ólíklegustu gervum og búningum sem Þórunn María Jónsdóttir hefur tínt saman af alúð. Köngulóarmaðurinn, skátar, lögreglumenn, bílastæðaverðir, klerkar og fangar auk sjálfsupptekinna leikara, leikstjóra og dagskrárgerðamanna birtast þar meðal annars. Ég verð að minnast sérstaklega á snilldar yddaða dagskrárgerðarkonu Arndísar Hrannar, hinn félagslega vanhæfa íbúðareiganda sem Eggert Þorleifsson leikur af elegans eins og Guðrún Gísladóttir konu hans sárþjáða og upprifjun Baldurs Trausta á gömlu leikatriði. Leikstjórinn hefði hins vegar mátt aðstoða Ilmi betur í að halda uppi langdregnasta atriði verksins en mikið var gott að sjá að Atli Rafn er aftur að ná vopnum sínum og fær að njóta sín. 

Þetta er fyrsta leikstjórnarverkefni Finns Arnars og ég var lengi að hugleiða hvort ég ætti að ræða rytmann í sýningunni, skort á leikrænum lausnum í lengstu brotunum en sé enga ástæðu til þess. Því að ég held að fáum hefði tekist betur að heiðra minningu Þorvalds Þorsteinssonar en Finni Arnari. Þegar upp var staðið þóttist ég meira að segja heyra eins og úr fjarlægð Þorvald segja: „Það er svo gaman að lifa og skapa.“

Tengdar fréttir

Myndlist

Ótrúlega fyndin og absúrd heimspekileg kómedía

Myndlist

„Skrítið og ógeðslega skemmtilegt“

Leiklist

„Það er fegurð úti um allt“