Eva Sigurðardóttir er í skipulagsteymi göngunnar sem í ár leggur sérstaka áherslu á að gangan sé allra. Þau vilja fá sem flesta til að taka þátt og vera meðvitaðir.
Eva segir metoo-byltinguna að sjálfsögðu hafa haft áhrif og hér á Íslandi hafi það verið sérstaklega sjokkerandi hve mikill fjöldi kvenna steig fram. „Þetta voru konur í öllum starfsstéttum og úti um allt. Allar konur hafa lent í einhverju.“
Á þeim átta árum sem hafa liðið frá því að druslugangan var fyrst haldin segir Eva ýmislegt hafa breyst. Augljósust er breytingin á samfélaginu og viðhorfum fólks í samfélaginu. „Það er auðveldara að segja frá og fólk fær þann stuðning sem það þarf.“ Enn er þó ýmislegt sem mætti bæta. Í því sambandi nefnir Eva réttarvörslukerfið og verkferla sem fylgt er ef þolandi ákveður að kæra.