Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Áhætta ríksins vegna Farice veruleg

24.11.2015 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: landinn - ruv
Ríkisendurskoðun telur að áhætta ríkisins vegna ábyrgðar á lánum Farice ehf., sem á og rekur sæstrengi milli Íslands og meginlands Evrópu, sé veruleg þrátt fyrir að staða Farice hafi batnað töluvert síðustu ár. Skuldir félagsins námu í fyrra um 8,3 milljörðum króna og var ríkisábyrgð á um 85% af þeirri upphæð eða rúmum sjö milljörðum.

Fyrir þremur árum gerði ríkisendurskoðun skýrslu um aðkomu ríkisins að málefnum Farice. Þar kom fram að staðan væri erfið og ríkið hefði lagt því til fé, bæði hlutafé og lán og gengist í ábyrgðir. Ríki og Landsvirkjun áttu í árslok 2012 um 60% í Farice. Þá var meðal annars bent á það í skýrslunni að þjónustusamningur við félagið hefði ekki verið í samræmi við reglur og að vantað hefði heimildir þegar ríkið tók á sig skuldbindingar vegna Farice. Í eftirfylgniskýrslu, sem nú er birt, kemur fram að mál hafi þróast þannig að ekki sé talin ástæða til að ítreka ábendingarnar.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV