Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

AGS spáir hægfara efnahagsbata á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt - RÚV
Eftir kröftugan hagvöxt síðustu ár hefur nú dregið til muna úr hagvexti, segir í samantekt sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kynnt var í morgun. Samdráttur í ferðamennsku og aukin óvissa hefur dregið úr innlendri eftirspurn og atvinnuleysi hefur aukist. Gert er ráð fyrir hægfara efnahagsbata á næsta ári en efnahagurinn verður áfram viðkvæmur.

Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, undir forystu Ivu Petrovu, hefur verið hér á landi við úttekt á íslensku efnahagslífi síðastliðnar tvær vikur. Á því tímabili hefur sendinefndin átt fjölmarga fundi með íslenskum stjórnvöldum og öðrum hagaðilum, segir í tilkynningu frá Seðlabankanum. Niðurstaða sendinefndarinnar er nú kynnt á blaðamannafundi í Hannesarholti í Reykjavík. 

Í úttektinni segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi hjálpað efnahagslífinu og dregið úr slæmum áhrifum af samdrætti í ferðaþjónustu. Lækkun stýrivaxta Seðlabankans hafi haft jákvæð áhrif sem og Lífskjarasamningarnir. 

Þær umbætur sem nú standi yfir styrki fjármálakerfið. Þá er mælt með auknu gagnsæi þegar kemur að stórum fyrirtækjum sem ekki eru skráð í Kauphöll en skipta þjóðarbúið miklu. Þá segir að það sé mjög til bóta að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið eins og stendur til að gera. 

Enn mikil óvissa

Þá er varað við mikilli óvissu um efnahagshorfur. Til að mynda vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, samdráttur bæði í Evrópu og á heimsvísu og alþjóðlegur samdráttur í ferðaþjónustu. Einnig skapi kyrrsetning Boeing 737 Max-vélanna erfiðleika. Allt þetta geti orðið til þess að hér verði samdráttur í efnahagslífi. 

Þá mælir sendinefndin ekki með því að Seðlabankinn lækki stýrivexti frekar nema því aðeins að horfur í efnahagslífi versni til muna.

Hvatt er til þess að störfumverði fjölgað fyrir langskólagengna og framleiðsla verði aukin. Lagt er til að ráðist verði í umbætur í menntakerfi, einkum á sviði kennaramenntunar. Þá er lagt til að börn innflytjenda fái meiri aðstoð við að verða hluti af samfélaginu.