„Ágætis hópur sem stendur að þessu átaki“

14.04.2019 - 21:57
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Friðrik Atli Guðmundsson, smiður, er skráður sem ábyrgðarmaður vefsíðunnar hluthafi.com sem var, þangað til í kvöld, nafnlaus vefsíða. Þar er óskað eftir hluthöfum að nýju lággjaldaflugfélagi. Vefsíðan er styrkt af byggingarfélagi föður Friðriks, Sólhús ehf.

 

Friðrik staðfesti í samtali við fréttastofu að það væri hann og byggingarfélag föður hans, Sólhús, sem væru ábyrgir fyrir síðunni en það væri ágætur hópur manna sem stæði að þessu átaki.

Hann vildi ekki gefa upp hverjir það væru en það myndi vonandi skýrast á næstunni. Hann sagði að þeir vonuðustu til að almenningur tæki sig saman og sameinaðist um að hér á landi væri lággjaldaflugfélag, hvort sem það væri WOW eða nýtt flugfélag.  

Hann sagði þetta vera bara einstaklinga sem væru ekkert frábrugðnir öðrum sem sæju tækifæri í að hafa lággjaldaflugfélag hér á landi. Að öðru leyti gæti hann voðalega lítið sagt eins og staðan væri núna. Hann segir að fólk hafi haft samband og sýnt þessu áhuga og því gæti hópurinn stækkað enn frekar.

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW, sagðist í kvöldfréttum RÚV ekkert vita um þessa síðu en netafbrotadeildin ætlar að skoða hana á morgun.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV