Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Afturhvarf til kalifadæmis?

Mynd með færslu
 Mynd:

Afturhvarf til kalifadæmis?

27.11.2014 - 18:45
Íslamska ríkið lýsti í júní yfir kalífadæmi í norðurhluta Íraks og Sýrlands. Abu Bakr al-Baghdadi lýsti sjálfan sig kalífa og krafðist hollustu allra múslima. Þetta vakti fordæmingu um öll Miðausturlönd en engu að síður er varasamt að vanmeta aðdráttarafl Íslamska ríkisins.

Grimmdarverk og harðstjórn Al-Baghdadis eru vissulega ekki í samræmi við hefðbundinn skilning múslima á kalífadæmi en vekur samt upp ákveðna fortíðarþrá. Síðasta kalífadæmið var veldi Ottomana eða Tyrkjaveldi sem formlega var afnumið fyrir níutíu árum. Samkvæmt Gallupkönnun árið 2006 í Egyptalandi, Marokkó, Indónesíu og Pakistan sögðust tveir af hverjum þremur styðja sameiningu allra íslamskra landa í nýtt kalífadæmi. Þeir sjá mikilfenglega sögu í hillingum. Kalífi merkir umboðsmaður eða arftaki og er í kóraninum tengt réttmætri stjórn. Adam og síðar Davíð og Salómon eru sagðir kalífar guðs á jörðu og eftir fráfall spámannsins Múhameðs gekk kalífatitillinn til arftaka hans. Sítar telja reyndar að fyrstu kalífarnir hafi í raun tekið réttmæt völd af Ali, frænda spámannsins. Allt frá þeim tíma hafa sítar og súnnítar átt í erjum. Súnnítar hafa þurft að þola marga misvitra harðstjóra og margir heillast af hugmyndinni um réttlátt kalífaveldi með vísun til fornrar frægðar. 

Sagnfræðiprófessorinn Hugh Kennedy bendir á að sjötíu árum eftir fráfall spámannsins hafi veldi múslima náð allt frá Spáni og Marokkó til Mið-Asíu og suðurhluta Pakistans. Allt þetta mikilfenglega ríki var undir stjórn eins kalífa. Það er þessi sjálfstjórn, stórveldi og eining trúaðra sem fólk horfir til með söknuði. Þetta var gullaldartími í menningu og listum og Baghdad var miðstöð framfara í læknisfræði, vísindum, stærðfræði, tónlist og bókmenntum. Með tímanum reyndist erfitt að hafa miðlæga stjórn á þessu mikla veldi og hugmyndir um stjórn og trúarleg efni voru mismunandi. Kalífinn hélt þessu saman í rúma öld en eftir það fór veldið að brotna í smærri einingar. Kalífarnir urðu fleiri en einn. Abbasid kalífadæmið hrundi svo þegar mongólar undir forystu Hulagu Khan hertóku Bagdad árið 1258. 

Kalífar voru reyndar til áfram að nafninu til en meira til skrauts. Á sextándu öld tók Tyrkjasóldán upp merki kalífans og það veldi ríkti í fjögur hundruð ár, þar til Kemal Ataturk afnam trúarlegar tengingar í viðleitni sinni til að koma ríkinu inn í tuttugustu öldina. Kalífinn hefur lifað í hugum fólks sem tákn um leiðtoga sem er ábyrgur, réttlátur og í samræmi við íslömsk lög og siði, ólíkt þeirri sundurleitu hirð einræðisherra, konunga og harðstjóra sem oft hafa ríkt í þessum löndum. 

Víða á Vesturlöndum var talið að arabíska vorið í löndum eins og Túnis, Egyptalandi og Líbíu væri sönnun þess að framtíð þessara ríkja lægi í lýðræði. En það haustaði snemma þetta arabíska vor. Hershöfðinginn al-Sisi steypti lýðræðislega kjörinni stjórn múslímska bræðralagsins í Egyptalandi og veturinn skall á með uppgangi Íslamska ríkisins í þeirri upplausn sem ríkti í Írak og Sýrlandi. Salman Sayyid, við háskólann í Leeds, segir að margir telji að uppgang Íslamska ríkisins megi rekja til valdaráns al-Sisis. Lögmæti flestra ríkisstjórna sé dregið í efa og óþol almennings fari víða vaxandi. Hugmyndin um kalífadæmið sé meðal annars von margra múslima um aukið sjálfstæði. Vilji almennings til að hafa áhrif á eigin sögu er mikill og hugmyndin um kalífadæmið er sterk í hugum fólks.

Súnní-guðfræðingurinn Sheikh Ruzwan Mohammed segir að kalífadæmið sé andlegt í hugum flestra. Íslamska ríkið verði að koma innan frá og vera fyrst og fremst huglægt. Og hann segir að yfirgnæfandi meirihluti, jafnvel meðal þeirra sem vilja veraldlegt íslamskt ríki, hafni því ofbeldi sem sjálfskipaður kalífi og hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið standi fyrir. Samtökin nýta sér engu að síður söguna sér til framdráttar. Sagnfræðingurinn Hugh Kennedy bendir til dæmis á að svartur einkennisklæðnaður og fáni samtakanna hafi beina skírskotun í svörtu kuflana sem notaðir voru á hátindi kalífadæmisins á áttundu öld, gullöld íslams í hugum flestra. Upphaflega nafnið, Íslamskt ríki Íraks og Levant vísar til þess tíma þegar núverandi landamæri voru ekki til staðar. Þessi svæði voru undir hinu mikla íslamska kalífadæmi. Árangur hryðjuverkasamtakanna sýnir í öllum sínum ljótleika hvað kalífadæmið er enn mikill innblástur og táknrænn fyrir múslima. Kalífadæmið er ekki draumórar einir í hugum fólks.