Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aftur mótmælt í Egyptalandi

22.09.2019 - 06:53
epaselect epa07858289 Egyptian protesters gather in downtown Cairo shouting anti-government slogans during a demonstration in Cairo, Egypt, 21 September 2019.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Egypsk öryggislögregla tókst í gær á við nokkur hundruð mótmælenda í hafnarborginni Suez, annað kvöldið í röð. Minnst 74 voru handtekin eftir mótmæli föstudagsins í einum átta borgum Egyptalands, þar á meðal Kaíró, Alexandríu og Suez, en fréttir hafa enn ekki borist af handtökum í mótmælum gærkvöldsins.

 

Mótmælendur saka Egyptalandsforseta, Abdel Fattah el-Sisi, um spillingu, vanhæfni og óráðsíu og krefjast afsagnar hans og ríkisstjórnarinnar.

Öryggislögregla gekk hart fram gegn mótmælendum í gær, rétt eins og í fyrradag, og beitti hvorutveggja táragasi og skotvopnum. Þá var lögregla með mikinn viðbúnað á Tahrir-torginu í Kaíró, þar sem byltingin sem leiddi til falls Hosni Mubaraks hófst árið 2011.

Mótmæli á almannafæri eru bönnuð í Egyptalandi nema að fengnu sérstöku leyfi, sem sjaldnast er veitt. Bannið var leitt í lög eftir að hershöfðinginn Sisi leiddi valdarán hersins gegn Mohamed Morsi, réttkjörnum forseta landsins, árið 2013, og Sisi gerðist forseti í hans stað.

Mótmæli gegn stjórnvöldum hafa því að vonum verið fátíð í Egyptalandi síðustu ár. Hækkandi verð á nauðsynjavörum síðustu ár á sama tíma og ríkisstjórn Sisis hefur skorið niður ríkisútgjöld og þjónustu hins opinbera hefur valdið því að óánægja fer ört vaxandi, að sögn fréttaskýrenda The Guardian og Al Jazeera. Nær þriðjungur Egypta lifir undir fátæktrarmörkum, á minna en 200 krónum á dag. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV