Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aftökur eftir árangurslausan leiðtogafund

31.05.2019 - 05:43
Mynd með færslu
Kim Jong-un og Donald Trump í Hanoi í febrúar Mynd:
Yfirvöld í Norður Kóreu létu taka fimm háttsetta erindreka af lífi og sendu minnst þrjá til viðbótar í þrælkunarbúðir eftir að leiðtogafundur þeirra Kim Jong-uns og Donalds Trumps í Víetnam fór út um þúfur, samkvæmt frétt suður-kóreska blaðsins Chosun Ilbo. Blaðið vísar í ónefnda heimildarmenn í bæði norður- og suður-kóreska stjórnkerfinu og segir að aðalerindreki Norður Kóreu í málefnum Bandaríkjanna sé á meðal þeirra sem teknir voru af lífi í mars síðastliðnum.

Erindrekinn, Kim Hyok-chol, var lykilmaður Pjongjang-stjórnarinnar í undirbúningi leiðtogafundarins í febrúar og átti sem slíkur í nánu samstarfi við Stephen Biegun, aðalerindreka Bandaríkjastjórnar. Kim Hyok-chol og hinir embættismennirnir fjórir, sem allir munu hafa starfað í utanríkisráðuneytinu, eru sakaðir um að hafa svikið leiðtogann Kim og njósnað fyrir Bandaríkin.

Sendur í hugmyndafærðilega endurmenntun

Annar háttsettur embættismaður og einn nánasti ráðgjafi Kims Jong-uns til skamms tíma, Kim Yong-chol, féll líka í ónáð eftir leiðtogafundinn. Hann átti líka drjúgan þátt í að koma fundinum á og starfaði meðal annars náið með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, við undirbúning hans.

Samkvæmt heimildum Chosun Ilbo var hann sendur í þrælkunarbúðir þar sem hann á að undirgangast hugmyndafræðilega endurmenntun. Það gildir einnig um Kim Song-Hye, sem aðstoðaði Kim Hyok-chol við samningaviðræðurnar í aðdraganda fundarins, og loks var Shin Hye-yong, túlkur Kim Jong-uns á leiðtogafundinum, hneppt í fangabúðir fyrir „afdrifarík mistök“ í túlkun sinni á orðum leiðtogans.

Loks er fullyrt að Kim Yo-jong, systir Kims Jong-uns, hafi fengið fyrirmæli um að hafa hægt um sig í kjölfar hins misheppnaða leiðtogafundar, hvað sem í því felst. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV