Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aftenging ljósleiðarans skerði rétt neytenda

Mynd með færslu
 Mynd: Gagnaveita Reykjavíkur
Gagnaveita Reykjavíkur (GR) safnar upplýsingum um þau heimili þar sem búið er að aftengja ljósleiðarainntak fyrirtækisins. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ákvað nýverið að Míla, helsta samkeppni GR á ljósleiðaramarkaði, hafi brotið reglur með því að tilkynna ekki brotalamir og að hafa aftengt inntak annarra fyrirtækja.

Gagnaveitan hafði kvartað til PFS vegna þess að starfsmenn Mílu höfðu ítrekað aftengt ljósleiðarainntakið sem fyrir er og tengt það í eigið box. Þetta telur Gagnaveitan skerða rétt neytenda til þess að geta valið hvaðan þeir kaupa ljósleiðaraþjónustu og PFS er sammála.

Innan fasteignar eiga að liggja tveir ljósleiðaraþræðir. Það fyrirtæki sem leggur ljósleiðara í hús á að ganga þannig frá að annað fyrirtæki geti tengt ljósleiðarainntak við annan þráð. Þar með er óþarft að aftengja eitt inntak fyrir annað og auðveldara fyrir neytendur að velja hvaðan þeir kaupa þjónustuna.

En Míla aftengdi og fjarlægði ljósleiðarainntakið af veggnum, til þess að tengja eigið inntak. Gagnaveitan hefur nú hafið könnun á því hversu víða þetta hefur verið gert og óskar eftir aðstoð almennings í þeim efnum.

Míla ósammála

Míla segir vandann hins vegar felast í því að Gagnaveita Reykjavíkur hafi aldrei farið eftir reglum.  Míla segist jafnvel hafa fært lagnir í lögmætt horf ef frágangur GR hafi verið lélegur.

„Séu aukaþræðir til staðar á annað borð þá eru þeir ekki aðgengilegir þar sem þeir liggja í flækju í inntaki GR, eru of stuttir eða of fáir,“ segir í erindi Mílu til PFS. „Í þessum tilvikum er Mílu nauðugur einn kostur að fara í inntak GR og reyna að veiða þráð þar.“

Í ákvörðun PFS er ekki fallist á sjónarmið Mílu um að erfitt sé að finna aukaþráðinn og að hann sé of stuttur. Aukaþráðurinn þurfi að vera mjög stuttur til þess að það verði vandamál og að það sé sjaldnast tilfellið.