Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áfrýja dómum sínum í gagnaversmálinu

27.01.2019 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Sindri Þór Stefánsson og Matthías Jón Karlsson, sem fengu þyngstu refsingarnar í gagnaversmálinu svokallaða, hafa ákveðið að áfrýja dómum sínum til Landsréttar. Þetta staðfesta verjendur þeirra í samtali við fréttastofu.

Sindri Þór var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir hlutdeild sína.  Hann er umtalaðasti sakborningurinn í málinu eftir flótta sinn úr fangelsinu að Sogni og það vakti heimsathygli þegar hann flaug til Svíþjóðar með sömu vél og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Héraðsdómur sagði í dómi sínum að það væri niðurstaða dómsins að Sindri hefði verið höfuðpaurinn. Hann hefði skipulagt brotin og undirbúið í þaula.  Brotin væru stórfelld, ekki bara vegna verðmætanna sem var stolið heldur einnig vegna þeirra aðferða sem viðhöfð voru við undirbúning og í aðdraganda þeirra. Verjandi Sindra sagði eftir dómsuppkvaðningu að hann hefði búist við vægari dómi.

Matthías Jón hlaut tveggja og hálfs dóm.  Héraðsdómur sagði ljóst að hann hefði tekið fullan þátt í undirbúningi og skipulagningu innbrota í þrjú gagnaver, tvö í Reykjanesbæ og eitt í Borgarnesi. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um innbrot í tvö önnur gagnaver.

Héraðsdómur sagði jafnframt að sakborningar hefðu reynt til hins ýtrasta að hylja slóð sína og villa um fyrir lögreglu. Þá hefðu munirnir sem stolið var ekki fundist þrátt fyrir víðtæka leit lögreglu.