Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áframhaldandi myrkur í Fjallabyggð og á Dalvík

12.12.2019 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet - Facebook
Engin leið er að vita hvenær rafmagn kemst á ný á Dalvík, Siglufjörð og Ólafsfjörð að nýju. Þetta segir upplýsingafulltrúi Landsnets. Viðgerð á Dalvíkurlínu er nú í algjörum forgangi, en ófært er á milli staða og mjög erfitt að komast þangað. Bæirnir hafa verið án rafmagns síðan aðfaranótt miðvikudags.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í hádegisfréttum að nú væru Dalvík, Siglufjörður og Ólafsfjörður í algjörum forgangi. Dalvíkurlína sér bæjunum fyrir rafmagni og hefur þar verið rafmagnlaust þar í á annan sólarhring. 

„Við urðum fyrir miklu tjóni þar í veðrinu. Það brotnuðu þar hátt í 20 stæður og það er ástæðan fyrir því að línan er úti og rafmagnslaust er á svæðinu. Við sendum flutningabíl af stað í nótt með efni á svæðið og vonumst til að þeir verði komnir þangað um hádegið og hægt sé að hefja viðgerð í dag,” segir Steinunn.  

Varðskip sem varaaflstöð

Varðskipið Þór er nú á leið til Dalvíkur og vonir standa til að hægt verði að nota hann sem varaaflstöð til að sjá bænum fyrir rafmagni.  

„Það er ómögulegt að segja hvenær rafmagnið kemst á,” segir Steinunn. „En viðgerð mun taka einhverja daga, þó vonum við að það náist að koma varaafli til Dalvíkur þannig að rafmagn komist á sem fyrst. Það er forgangsmál hjá okkur öllum í dag. Það er allt tiltækt lið Landsnets, Rarik og Veitna, sem og verktakar á okkar snærum, sem eru í þessu verkefni í augnablikinu.” 

Það er líka rafmagnslaust á Siglufirði og Ólafsfirði.

Vísar gagnrýni Gunnars Braga á bug

„Þetta hangir allt á Dalvíkurlínunni,” segir Steinunn. „Nú á að reyna að tengja þetta við Skeiðsárvirkjun í Fljótum, en það er ómögulegt að segja hvenær rafmagn kemst á flutningskerfið að nýju.” 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi Landsnet á Alþingi í morgun og sagði stofnunina ekki hafa verið nægilega undirbúna fyrir fárviðrið. Steinunn vísar því á bug. 

„Þegar við eigum von á veðri eins og þessu, fara af stað áætlanir. Þetta var margra daga undirbúningur, við áttum fundi með veðurfræðingum, gerðum áætlanir, mönnuðum tengivirki og sendum mannskap á staðinn.”