Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áfram unnið að rýmingaráætlun

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Áfram verður fylgst grannt með þróun mála á Reykjanesi og er unnið að rýmingaráætlun fyrir Grindavík og nærliggjandi svæði ef svo fer að eldgos hefjist.

Vísindaráð almannavarna kom saman til fundar í gær og hefur stöðuskýrsla verið birt. Ráðið fundar að óbreyttu aftur í síðari hluta næstu viku.

Í skýrslunni segir að jarðskjálftavirkni haldi áfram á svæðinu og dreifist hún á nokkrar sprungur norður af Grindavík. Landið við Þorbjörn rís enn og nemur landrisið 3 til 4 sentímetrum þar sem það er mest.

Rúmmál kvikunnar lítið

Kvika virðist vera að safnast saman í jarðskorpunni og benda líkanreikningar til þess að rúmmál kvikunnar sé um 1 til 2 milljónir rúmmetra. Þykir það mjög lítið í samanburði við önnur eldgos sem orðið hafa þótt magnið sé tvöfalt til þrefalt meira en við fyrsta mat.

Engin áhrif kviku hafa komið fram í jarðhitakerfi Svartsengis.

Verið er að bæta þremur nýjum jarðskjálftamælum við rauntímavöktun Veðurstofunnar og tveir í viðbót verða settir upp á næstu dögum. Helsti tilgangur þeirra er að bæta áreiðanleika jarðskjálftastaðsetninga.

Gas-og efnamælingar í jarðhitavökva hafa verið auknar á jarðhitasvæðinu við Svartsengi og Eldvörp í samstarfi við HS-orku. ÍSOR vinnur að þyngdarmælingum til að kanna og fylgjast með mögulegum breytingum í jarðskorpunni.

Grindavík skipt í rýmingarsvæði

Unnið er að rýmingaráætlun fyrir Grindavík, Svatsengi og svæði þar um kring. Búið er að skipta bænum í Grindavík í rýmingarsvæði og unnið er að nánara skipulagi.

Gerð hefur verið áætlun um flutning fólks af hjúkrunarheimili og dvalarheimili aldraðraauk þess sem fólk sem sinnt er í heimahjúkrun fylgir í áætluninni. Fólk sem er rúmliggjandi verður flutt á heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ.

Lögregla mun hafa tvo lögreglubíla í Grindavík allan sólarhringinn meðan þessar jarðhræringar standa yfir.

Vegagerðin hefur ákveðið að auka vetrarþjónustu á Suðurstrandarvegi(427)milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og á Nesvegi (425) milli Grindavíkur og Hafna til að tryggja að rýming frá Grindavík geti farið um hvoru tveggja þessa vegi.

Keyra gagnaver á varaafli

Raforkunotkun á Suðurnesjum í heild er um 105 MW á sólarhring, gagnaver nota um 70 MW en önnur notkun er um 35 MW. Einhver gagnaver munu vera með varaafl.

Hægt er að flytja um 130 MW inn á svæðið um Suðurnesjalínu 1 ef flutningur raforku frá Reykjanesvirkjun og Svartsengi bregst. Sú flutningsgeta á að nægja ef hægt er að halda hitaveitu frá Svartsengi í rekstri.

Ef heitavatnsframleiðsla á svæðinu bregst þarf aðleysa hitun húsa með öðrum hætti. Kanna þarf möguleika á að hita vatn fyrir hitaveitu.

Mikilvægur sendistaður er fyrir TETRA öryggisfjarskipti og fjarskiptafyrirtæki á Þorbjarnarfelli. Þar er varaafl fyrir TETRA og farsímasenda, bæði rafgeymar og varaaflsstöð. Á mánudag var fyllt á olíugeyma fyrir varaflsstöð.

Rýmingartexti á fjórum tungumálum

Tryggja þarf að hægt verði að ryðja veg upp á Þorbjarnarfell ef sinna þarf viðhaldi eða að koma meiri olíubirgðum þangað upp. Míla hefur flutt varaaflsstöð til Grindavíkur fyrir símkerfi í bænum og GSM senda. Lögreglan hefur aðgang til að tengja þann búnað ef þarf.

Neyðarlínan sendi prófunarboð á alla farsíma á svæðinu í og við Grindavík mánudaginn 27. jánúar. Búið er að semja texta sem sendur verður á svæðið. Textinn er á íslensku, ensku, pólsku og tælensku.

Rauði krossinn hefur undirbúið opnun fjöldahjálparstöðva. Björgunarsveitir hafa tekið þátt í gerð viðbragðsáætlana, bæði varðandi rýmingu og aðra þætti.