Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Áform um nýjar höfuðstöðvar gagnrýnd

12.07.2015 - 20:05
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýna áform Landsbankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar. Varaformaður fjárlaganefndar segir skrýtið að enginn geti gert neitt, þótt öllum sé ljóst að bankinn fari illa með eigur ríkisins.

Árið 2007 ákvað Landsbankinn sem þá var alþjóðlegt fjármálafyrirtæki að byggja nýjar höfuðstöðvar. Þær áttu að rísa á lóð fyrir neðan Arnarhól í Reykjavík. Sumarið 2008 var haldin hugmyndasamkeppni og samkvæmt vinningstillögunni áttu höfuðstöðvarnar að verða 33.500 fermetrar. Arkitektarnir lýstu því að húsið myndi laga sig að öflum borgarinnar. Myndi halla sér fram til að skýla, lækka sig af kurteisi við gamla bæinn og hækka sig til að sjá Esjuna örlítið betur. Húsið sýni þannig lítillæti, stórmennsku og örlæti.

Ekkert varð af þessum áformum vegna hrunsins. Í fyrra keypti Landsbankinn, sem nú er í ríkiseigu, lóð við hlið Hörpu fyrir tæpan milljarð.

Fyrir þremur dögum boðaði bankinn byggingu nýrra höfuðstöðva sem verða 14 þúsund fermetrar eða meira en helmingi minni en stefnt var að fyrir hrun. Aftur verður efnt til hugmyndasamkeppni. Kostnaður er átta milljarðar en bankinn áætlar að 700 milljónir króna sparist á ári með því að flytja starfsemina, sem er á víð og dreif, undir eitt þak.

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir forgangsröðunina og segir að bankinn ætti frekar að bjóða betri kjör heldur en að byggja á dýrasta stað í miðborginni.

Þetta sé spurning um eigendastefnu sem hún sé ekki sammála. „Þetta er banki sem er í meirihlutaeigu ríkisins og mér finnst að við eigum að fara með okkar fjármuni öðruvísi en svona,“ segir Elín. „Ég tel að það sé allt of mikið í lagt og ég tel að þetta sé allt of dýr lóð fyrir bankann.“

Þótt þingmenn gagnrýni hvernig að er staðið er það ekki þeirra heldur stjórnenda bankans að ákveða byggingu höfuðstöðvanna.

„Auðvitað er það þannig að við erum búin að byggja upp kerfi sem er jákvætt að því leytinu til að við stjórnmálamenn eigum alls ekki að skipta okkur af rekstri bankans,“ segir segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. „Það er hins vegar orðið eitthvað skrýtið þegar öllum er ljóst að þarna er verið að fara illa með eignir ríkisins og enginn getur gert neitt í því. Ég mun að minnsta kosti vekja athygli á þessu og taka þetta upp á þingi þegar það kemur saman í haust.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV