Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áform um friðlýsingu Goðafoss

18.07.2019 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kynnt hafa verið áform um friðlýsingu Goðafoss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Stofnunin hefur einnig kynnt áform um friðlýsingu jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss í Fljótsdalshéraði.

Goðafoss nýtur mikilla vinsælda hjá ferðamönnum og margir leggja leið sína að honum árlega. Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði mun hafa kastað goðalíkneskjum sínum í fossinn við kristnitökuna og þaðan kemur nafnið Goðafoss.

Fossinn er einn vatnsmesti foss landsins, er 9 - 17 metra hár og um 30 metra breiður. Ásýnd fossins er breytileg eftir árstíðum, veðurfari og vatnsmagni en hann skiptist í tvo meginfossa og nokkra smærri. 

Það stendur einnig til að friðlýsa Heyskála, Hrafnabjörg og Unaós. Á svæðinu eru sögulegar minjar, meðal annars höfn og gamall verslunarstaður. Víða má sjá berghlaup og grjótjökla og fjölbreytt landslag. Á svæðinu eru fuglategundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. 

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Umhverfisstofnunar

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV