Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aflýsa fyrstu ferðum frá Sjanghæ til Keflavíkur

07.02.2020 - 08:45
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons
Kínverska flugfélagið Juneyao Air tilkynnti í gær að það hafi aflýst fyrstu sjö flugferðum félagsins frá Sjanghæ til Íslands. Til stóð að fyrsta flug yrði 31. mars, en nú er það áætlað 25. apríl. Kristján Sigurjónsson, eigandi ferðavefsins túristi.is, greindi frá þessu á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Í nóvember hafði Fréttablaðið eftir Xu Xiang, forstöðumanni flugfélagsins á Norðurlöndum, að Juneyao Air gerði ráð fyrir að ná um fimmtungi þeirra kínversku ferðamanna sem komi hingað til lands á hverju ári, eða um 20 þúsund.

Fjöldi flugfélaga aflýsti ferðum til og frá Kína nýverið vegna 2019-kórónaveirunnar sem á upptök sín þar í landi. Óvíst er hvenær flugsamgöngur verða teknar upp að nýju. Yfir 31 þúsund smit eru staðfest í Kína og eru nærri 640 látnir af völdum hennar. Neil Ferguson, prófessor við London Imperial College og sérfræðingur í smitsjúkdómum, telur að mun fleiri séu smituð af veirunni en kínversk stjórnvöld gefi upp. Áætlar hann að um 50 þúsund smitist á hverjum degi í Kína.

Veiran hefur veruleg efnahagsleg áhrif bæði innan og utan Kína. Kristján greindi meðal annars frá því að Tallink ferjunni, sem siglir á milli Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands, hafi borist um 11 þúsund afbókanir í febrúar frá Kína.