Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aflýsa 24 flugferðum á morgun

22.01.2020 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Forsvarsmenn Icelandair eru búnir að aflýsa 24 flugferðum á morgun og seinka brottför flugferða frá Bandaríkjunum til Íslands í kvöld vegna slæmrar veðurspár. Þetta hefur áhrif á ferðir um þrjú þúsund viðskiptavina flugfélagsins. Aðrar brottfarir eru á áætlun enn sem komið er þótt svo gera megi ráð fyrir að þeim seinki.

Í yfirlýsingu frá Icelandair segir að starfsfólk fyrirtækisins vinni nú að því að upplýsa farþega um breytingarnar og finna flug fyrir þá. Fólk fær senda nýja ferðaáætlun og þarf ekki að hafa samband við Icelandair nema sú ferðaáætlun henti ekki. Hér má sjá yfirlit yfir þær flugferðir sem hefur verið aflýst og þær sem hefur verið seinkað. 

Útlit er fyrir suðvestan hríð á stórum hluta landsins frá því seint í kvöld fram á seinnipartinn og jafnvel kvöld á morgun. Gular viðvaranir eru í gildi á nær öllu vestanverðu landinu og hálendinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV