Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Afkomendur fórnarlamba fá bætur frá hollenska ríkinu

28.03.2020 - 08:12
Frá Binjai.
Binjai í Indónesíu. Mynd: Wikicommons
Hollenska ríkið var dæmt til að greiða afkomendum ellefu manna sem voru drepnir í Indónesíu bætur. Mennirnir, sem voru flestir bændur, voru teknir af lífi af hollenskum hermönnum árin 1946 og 1947. Aftökurnar voru liður í tilraunum Hollands til að kveða niður sjálfstæðisbaráttu í Suður-Sulawesi héraði í Indónesíu.

Hinn 83 ára gamli Andi Monji bar vitni fyrir dómi í Haag. Þar sagði hann söguna af því þegar hann sá hermennina drepa föður hans. Þá var hann tíu ára gamall. Hann var myrtur 28. janúar árið 1947. Þann dag er talið að hollenski herinn hafi orðið um 200 manns að bana í Indónesíu, að sögn Guardian.

Japan hertók Indónesíu í síðari heimsstyrjöldinni, sem þá var hollenska nýlendan Hollensku Austur-Indíur. Eftir að styrjöldinni lauk lýstu þjóðernissinnuðu leiðtogarnir Sukarno og Hatta yfir sjálfstæði lýðveldisins Indónesíu í ágúst 1945. Næstu fjögur ár börðust Hollendingar fyrir því að halda yfirráðum í landinu, sem hafði verið nýlenda þeirra síðustu þrjár og hálfa öldina á undan. 

Hollenska ríkið hefur barist gegn því að greiða afkomendum bætur fyrir ódæðisverkin. Verjendur ríkisins vildu meina að of langur tími væri liðinn. Dómstóllinn í Haag var ósammála ríkinu, og dæmdi það til þess að greiða bætur frá rúmum 123 evrum upp í tíu þúsund evrur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV