Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afkoma ríkissjóðs versnar

10.11.2019 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Ríkissjóður verður rekinn með halla á næsta ári og horfurnar eru verri en í fjárlagafrumvarpinu í haust, segir þingmaður Viðreisnar. Útgjöld ríkissjóðs hafi verið aukin of hratt undanfarið. Þingmaður Samfylkingarinnar segir óviðunandi að þeir sem treysta á greiðslur almannatrygginga skuli ekki fá kjarabætur eins og launamenn hafa fengið. Það vanti í fjáraukalagafrumvarpið.

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar segir að miðað við versnandi efnahagsforsendur á árinu komi frumvarpið ekki á óvart. 

„Það er auðvitað slæmt hins vegar að sjá að hér eru þó áætluð útgjöld þessa árs að aukast um 15 milljarða til viðbótar við útgjaldaaukningu sem þegar var orðin mjög mikil,“ segir Þorsteinn. 

Á næsta ári sé svo spáð minni hagvexti en áður hafir verið gert ráð fyrir. 

„Þar af leiðandi eru verulega breyttar forsendur m.v. fjárlagavinnuna fyrir árið 2020 frá því fjárlagafrumvarpi, sem lagt var fram í haust. Og við sjáum að afkomuhorfur ríkissjóðs á næsta ári eru að versna talsvert. Það er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn jafnvel með nokkuð myndarlegum halla. Þannig að ég held að við séum að sjá afleiðingarnar af því í raun og veru að það hafi verið farið of bratt í útgjaldaaukningu ríkissjóðs á undanförnum árum og ríkissjóður að lenda í töluverðum afkomuvanda út af því.“

Fátækasta fólkið skilið eftir

Ríkisstjórnin skilur fátækasta fólkið eftir þegar verið er að gera sérstakar kjarabætur fyrir þá sem hafa lægstu launin. Þetta segir Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og saknar þess að þeir sem þiggja greiðslur frá almannatryggingum fái eitthvað í fjáraukalagafrumvarpinu.  Hún segir að það sjáist líka að áætlanagerð stjórnvalda hafi ekki verið nógu góð fyrir fjárlög þessa árs og því þurfi að gera margar breytingar sem sjáist á fjáraukalagafrumvarpinu. 

„En það sem ég sakna hins vegar er að ríkisstjórnin skuli ekki ætla að láta þá sem að treysta á greiðslur almannatrygginga fá sömu kjarabætur og aðrir launamenn hafa fengið. Það er að segja þau gera ekki ráð fyrir því að hækkanir komi frá 1. apríl eins og hjá launþegum. Við gerðum þetta 2011 þegar staða ríkisfjármála var nú heldur verri heldur en núna. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt að skilja fátækasta fólkið á Íslandi þegar verið er að gera kjarabætur sérstaklega fyrir þá sem eru með lægstu launin. Þetta er bara réttlætismál og við munum auðvitað gera breytingartillögur hvað þetta varðar,“ segir Oddný G. Harðardóttir.

Mynd með færslu
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Mynd: RÚV