Afhjúpaði glansmynd sjómennskunnar

Mynd: RÚV / RÚV

Afhjúpaði glansmynd sjómennskunnar

03.09.2019 - 13:57

Höfundar

Lengi vel var máluð mikil glansmynd af sjómennsku í allri dægurtónlist þrátt fyrir að starfið hafi verið mjög erfitt. „Það er ekki fyrr en með Bubba Morthens að við fáum þessa afhjúpun á störfum sjómannsins eins og þau voru í raunveruleikanum,“ segir Rósa Margrét Húnadóttir þjóðfræðingur.

Í þriðja þætti af Veröld sem var, var fjallað um sjómennskuna. „Hann sprengir þetta alveg upp, afbyggir þessa rómantík,“ heldur Rósa Margrét áfram. Bubbi sjálfur er ekki alveg sammála þessu. „Nei, ég held ég hafi lyft henni á annað plan. Gefum okkur að þú ert úti á dekki í leiðindaveðri. Það er gjallhorn á brúnni þar sem Gufunni er útvarpað yfir dekkið. Menn eru með blautar ermar og blautan kraga. Svo kemur eitthvað lag, segjum Hvítir mávar, og þú ert bara „Hvaða kjaftæði er þetta?““ segir Bubbi.

Sú tónlist endurspegli ekki hans reynslu af sjómennsku. „Þetta er sögufölsun að einhverju leyti. Þetta var mjög brútal líf, mjög hart, mjög blautt, mjög kalt, sjóveiki, fyllirí, ríðingar, slagsmál, allur þessi pakki. Nei, ég held ég hafi ekki drepið sjómannarómantíkina, ég held ég hafi lyft henni á annað plan.“

Í þriðja þætti af Veröld sem var er fjallað um sjómennskuna. Við sögu koma óskalög sjómanna, ástir og ævintýr, brimhljóð og veðragnýr. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sem og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Reykjandi api og undrabarn á sjómannadeginum

Tónlist

Rússneskur Íslandsvinur reyndist þýskur

Tónlist

„Eru ekki fiskar sem hafa kúkað í þetta vatn?

Menningarefni

„Þær eyðilögðu það sem er heilagast: Heimilin“