Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Afhendingaröryggi ekki tryggt með lagningu jarðstrengja

16.12.2019 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Lengdatakmarkanir jarðstrengja á hæstu spenntustigum flutningskerfa raforku leiðir af sér að notkun svo stuttra jarðstrengskafla mun ekki hafa veruleg áhrif á afhendingaröryggi, raforkuverð, umhverfiskostnað eða byggðaþróun.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu stjórnvalda um lagningu raflína og þjóðhagslega hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið fengu á síðasta ári dr. Hjört Jóhannsson til að vinna skýrsluna með tilliti til áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggi, hagkvæmni, byggðaþróun og umhverfiskostnað. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að treysta þurfi betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði, tryggja afhendingaröryggi um land allt og skoða að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi í slíkar tengingar.

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni með því að smella hér.

Hátt tæknilegt flækjustig

Í skýrslunni kemur fram að þar sem ekki er mögulegt að leggja jarðstrengi alla línuleið nýrra flutningslína myndi notkun jarðstrengs innan flutningslínu leiða tli þess að línan væri að hluta til loftlína og að hluta til jarðstrengur.

„Áhættusamt er að beita sjálfvirkri eða skjótri endurlokun á blandaða línu. Hafi bilun orðið í jarðstrengshluta línunnar og sjálfvirk endurlokun setur línuna aftur inn, getur skammhlaupsstraumurinn valdið frekari skemmdum á strengnum eða skemmt endabúnaðinn. Sé horfið frá því að beita sjálfvirkri eða skjótri endurlokun innan blandaðra lína hefur það í för með sér mikla hækkun á útitíma línunnar og þar með neikvæð áhrif á afhendingaröryggi í samanburði við tilfelli þar sem aðeins er notast við loftlínu,“ segir í skýrslunni.

Hvað varðar áhrif á raforkuverð var stuðst við kostnaðarhlutfall milli lagningar jarðstrengja og loftlína við íslenskar aðstæður til að bera saman áhrif notkunar jarðstrengjakafla í stað loftlína á eignastofn Landsnets. Því viðmiði var beitt að lagning jarðstrengja sé um það bil tvisvar sinnum dýrari en lagning loftlína við íslenskar aðstæður og áætlað var að allsherjar styrking flutningskerfis með nýjum línum sé um 105 prósent af kostnaði við kerfisstyrkingar þar sem eingöngu er notast við loftlínur.

„Á raforkureikningi almennra notenda telur flutningur raforku um það bil 10 prósent og því má áætla að raforkuverð til almennings væri um það bil 0,1−0,2 prósent hærra ef möguleikar á notkun jarðstrengja væru fullnýttir við uppbyggingu flutningskerfi raforku samanborið við tilfelli þar sem aðeins væri notast við loftlínu,“ segir í skýrslunni.