Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afgangur ríkissjóðs 84 milljarðar 2018

28.06.2019 - 20:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árið 2018 var rekstrarafgangur ríkissjóðs 84 milljarðar króna en var 39 milljarðar árið 2017.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands. Þar segir að niðurstaðan sýni  sterka stöðu fjármála ríkisins. Tekjur ársins 2018 námu 828 milljörðum króna og rekstrargjöld 780 milljörðum króna. Vextir og önnur fjármagnsgjöld voru neikvæð um 56 milljarða króna. Um 91 milljarðs króna rekstrarafgangur var af félögum í eigu ríkisins. 

„Komið er að vatnaskilum í efnahagslífinu eftir einstaklega þróttmikinn og langan uppgangstíma með miklum tekjuauka heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs. Jákvæð afkoma ríkissjóðs árið 2018 endurspeglar styrk hagkerfisins þrátt fyrir að tekið hafi að halla undan fæti á síðari hluta ársins. Undanfarin ár hafa einkennst af nokkurri aukningu útgjalda í takt við auknar tekjur og ekki síst lækkandi vaxtabyrði ríkissjóðs. Með skuldalækkun og endurfjármögnun lána á hagstæðari kjörum hefur viðnámsþróttur ríkisfjármálanna verið aukinn til muna sem kemur að góðum notum nú þegar hægir á hagvexti,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV