Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áfengissala bönnuð í Nuuk til 15. apríl

29.03.2020 - 04:34
Mynd með færslu
Nuuk. Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Kim Kielsen, formaður landstjórnar Grænlands, setti í gær bann við kaupum á áfengi í Nuuk, Kapisillit og Qeqertarsuatsiaat. Bannið tók gildi þegar klukkan átta í gærkvöld og stendur til klukkan tíu fyrir hádegi 15. apríl. Kielsen segir þetta gert til þess að minnka áfengisdrykkju á heimilum á meðan fjölskyldur eru að mestu leyti heima vegna COVID-19. Fram til þessa hafa tíu tilfelli COVID-19 greinst í Nuuk.

„Í aðstæðum þar sem skólar, stofnanir, veitingastaðir og samkomuhús eru lokuð á áfengisneysla eftir að aukast heima fyrir, þar sem yfirvöld geta ekki fylgst með henni," hefur grænlenski miðillinn Sermitsiaq eftir yfirlýsingu Kielsen í gærkvöld.

Hann bætir því við að það myndi ekki aðeins skaða börnin og heimilislífið, heldur einnig auka hættuna á frekari útbreiðslu COVID-19 þar sem áfengi hefur áhrif á dómgreind fólks. Við aðstæður sem þessar verði yfirvöld að grípa til harðra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir faraldur. Kjarni málsins sé að börnum sé tryggt öruggt heimili að sögn Kielsen. Hann segist vonast til þess að samfélagið allt hafi velferð barna að leiðarljósi, og allir geti unnið saman að því að gera samfélagið öruggt.