Áfengisfrumvarpið í forgang

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Áfengisfrumvarpið í forgang

09.10.2015 - 09:56

Höfundar

Fyrsta umræða hófst á Alþingi í gær um frumvarp sextán þingmanna um að afnema einkarétt ÁTVR á smásölu áfengis og að sala verði að ákveðnu marki frjáls. Frumvarpið hefur þar með fengið ákveðinn forgang og vonast Vilhjálmur Árnason, fyrsti flutningsmaður, til að málið verði afgreitt.

Þau Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, vinstri-grænum, skiptust á skoðunum á Morgunvaktinni á Rás 1 um þetta umdeilda mál.

Meðal breytinga sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá síðasta þingi er að krafist verður persónuskilríkja af öllum sem kaupa vilja áfengi. Helst hefur verið deilt á það að frumvarpið feli í sér aukið aðgengi að áfengi, sér í lagi fyrir ungt fólk. Og með því sé verið að skapa ný heilbrigðisvandamál. Vilhjálmur segist ekki hafa áhyggjur af lýðheilsuvandamálum, er handviss um að aukið frelsi verði til bóta, og efli um leið verslun á landsbyggðinni. Hann segist vilja að ríkið einbeiti sér að mikilvægustu verkefnum sínum en láti einkaaðila um áfengissölu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir harmar að frumvarpið sé enn til umræðu, nær hefði verið að draga það til baka. Hún undrast að ekki sé hlustað á varnaðarorð og óttast sérstaklega lausung við sölu á fámennari stöðum. Þá sé einnig hætta á að vöruúrval í einkareknum verslunum verði lakara en ríki tryggi nú.