Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áfellisdómur, segir stjórnarformaður Sorpu

Mynd: RÚV / RÚV
Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkur um Sorpu er áfellisdómur, segir stjórnarformaður Sorpu bs. Stjórnin setti framkvæmdastjórann í leyfi. Hann segir skýrsluna ranga. 

Vantaði 1400 milljónir

Skýrslan var gerð eftir að í ljós kom að 1400 milljónir króna vantaði inn í áætlanir byggðasamlagsins.  Stjórn Sorpu kom af fjöllum í fyrra þegar í ljós kom að kostnaður við gas- og jarðgerðastoöð í Álfsnesi var tæpum 640 milljónum meiri en áætlað var og 719 milljóna króna kostnaður við tækjakaup í Gufunesi kom ekki fram í áætlunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmlur Þór Guðmu - RÚV
Birkir Jón Jónsson stjórnarformaður Sorpu bs.

Býst við frekari viðbrögðum stjórnar í lok næstu viku

Stjórninni var kynnt skýrsla innri endurskoðunar á stjórnarfundi í dag. Hún og framkvæmdastjórinn fengu hana í hendur 30. desember. Ákveðið var að afþakka vinnuframlag framkvæmdastjórans á meðan mál hans er til meðferðar. Þann 6. janúar sendi stjórnin framkvæmdastjóranum bréf: 

„Hann hefur andmælarétt til þess að bregðast við þeim ávirðingum, sem að í bréfinu eru, og hann rennur út í lok þessarar viku. Og í því ljósi ákváðum við að tjá okkur ekkert efnislega um skýrsluna á meðan á því ferli stendur enda talar skýrslan fyrir sig sjálf,“ segir Birkir Jón Jónsson stjórnarformaður Sorpu. 

Hann segir að að lokinni yfirferð andmælana megi búast við viðbrögðum stjórnar og á Birkir Jón von á að það verði í lok næstu viku. 

„Skýrslan er vissulega áfellisdómur yfir mörgum þáttum í starfsemi félagsins. Og við munum í stjórninni fara vel yfir það á næstu mánuðum. Hins vegar er margt í skýrslunni verðmætt, gagnlegar ábendingar um það með hvaða hætti við getum gert félagið skilvirkara.“

Misbrestur, ófullnægjandi, ómarkvisst og villandi

Skýrslan er 70 síður og samantektin fjórar. Það sem meðal annars er fundið að er: 

  • að tveir eftirlitshópar eigenda Sorpu hafi verið lítt virkir og ekki sinnt hlutverkum sínum, 
  • að framvinduskýrslur framkvæmdastjóra til stjórnar hafi verið ómarkvissar og stundum með röngum upplýsingum, 
  • að alvarlegur misbrestur hafi verið í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra þegar hann greindi stjórninni aldrei frá nýrri áætlun verkfræðistofu þar sem fram hafi komið 500 milljóna króna hærri kostnaður en í nýsamþykktri áætlun, 
  • kostnaðaráætlanir hafi verið vanmetnar
  • og að upplýsingagjöf um tækjakaup í Gufunesi hafi verið ófullnægjandi og villandi á köflum. 

Innri endurskoðun leggur líka til að stjórnin sitji í fjögr en ekki tvö ár eins og nú er. Stjórnarformaðurinn er hlynntur því og jafnframt samvinnu við hin byggðasamlögin; Strætó og slökkviliðið. 

Framkvæmdastjórinn hafnar ávirðingum

Björn H. Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu segir í yfirlýsingu, sem hann sendi Fréttastofu í kvöld, að skýrsla Innri endurskoðunar sé röng, ótraust og andstæð fyrri yfirlýsingum innri endurskoðanda. Hann hafnar þeim ávirðingum sem á hann séu bornar og segir að í 12 ára framkvæmdastjóratíð sinni hafi aldrei verið gerðar athugasemdir við störf sín. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gas- og jarðgerðarstöðin Sorpu í Álfsnesi.