Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Afar ánægjulegur áfangi“

27.06.2017 - 18:12
Mynd með færslu
Við undirritun samningsins Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Skrifað var í dag undir samning um að Náttúruminjasafn Íslands fái aðstöðu til sýninga í Perlunni. Þetta er í fyrsta sinn sem safnið fær húsnæði til eigin umráða, en það leysir þó ekki húsnæðisvanda þess að fullu. 

Húsnæðismál Náttúruminjasafns Íslands hafa lengi verið til umræðu, enda hefur safnið hingað til búið við þröngan kost sem hefur haft umtalsverð áhrif á starfsemina. Alþingi samþykkti í haust þingsályktun um að gert yrði ráð fyrir uppbyggingu safnsins í næstu fjármálaáætlun, en það var ekki gert. Nú er hins vegar búið að útvega fé til að hefja uppbygginguna og fær safnið aðstöðu í Perlunni sem hluti af umfangsmikilli náttúrusýningu Perlu norðursins. 

Alþingi á eftir að samþykkja fjármögnun

„Þetta er mjög mikilvægt skref. Það leysir ekki framtíðarvanda safnsins hvað varðar húsnæðisþörfina en er afar ánægjulegur áfangi,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. 

Fyrirhugað er að sýningin opni um mitt næsta ár í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. „Og núna förum við af stað með frumhönnun og innihaldslýsingu og kostnaðaráætlun. Þetta á að liggja fyrir eftir þrjá, fjóra mánuði og þá kemur til kasta Alþingis sem þarf að fjármagna sýningarhaldið.“ 

Biðin orðin löng

Hilmar er bjartsýnn á að slíkt fjármagn verði veitt, en hann gerir ráð fyrir að stofnkostnaður við sýninguna verði á bilinu 170 til 230 milljónir króna. Þá er áætlað að árlegur rekstrarkostnaður verði 6-8 milljónir króna. „Ég vona svo sannarlega að þetta sé komið í höfn. Biðin er orðin æri löng og ég veit að þjóðin vill endilega sjá gott höfuðsafn í náttúrufræðum sem mennta- og fræðslustofnun. Ekki bara fyrir skóla og æsku landsins, heldur einnig almenning og ekki síst erlenda ferðamenn,“ segir Hilmar.