„Af hverju ertu eins og þú ert?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Af hverju ertu eins og þú ert?“

21.02.2020 - 11:00

Höfundar

„Við krefjumst þess eiginlega að fá kaffi. Og fólk má ekki taka til áður en við mætum á svæðið, það verður að vera drasl. Við erum ekki eins og Hús og híbýli upp á það að gera,“ segir Ragnhildur Lára Weisshappel, myndlistarmaður og annar ritstjóra vefritsins Hús&Hillbilly, sem birtir viðtöl við íslenska listamenn sem tekin eru á heimilum þeirra eða vinnustofum.

Viðtölin eru með persónulegu sniði og umfjöllunin blæbrigðarík í myndmáli og texta. Vefinn setti Ragnhildur Lára á laggirnar ásamt systur sinni, Margréti Helgu Weisshappel, sem starfar sem hönnuður. Margrét Helga segir uppleggið hafa verið að fjalla um list og listamenn út frá öðrum vinkli en vanalega er gert. „Okkur fannst vanta þennan vettvang fyrir íslenska myndlistarmenn. Okkur finnst fólk bara svo áhugavert og erum forvitnar. Við erum ekkert bara að spyrja: „Notarðu olíumálningu eða vatnsliti?“, við erum að spyrja: „Af hverju ertu eins og þú ert?“

Sumir í stúdíói, aðrir í sófa

Að sögn Margrétar Helgu eru viðtölin afslöppuð og taka gjarnan stundum óvænta stefnu. „Við drekkum kaffi, svo bara byrjum við að spjalla og höfum hljóðupptökugræju í gangi og erum með lista sem við spyrjum þau að. Svo fer þetta oft bara í eitthvað rugl. Og við bara vinnum úr því þegar við komum heim.“

Umhverfi hvers og eins listamanns er að einhverju leyti hluti umfjöllunarinnar, hvar þeira starfa eða búa. „Það er gaman að sjá aðstöðu listafólks á Íslandi, sumir vinna í herbergi heima hjá sér eða í stofunni heima hjá sér eða í stúdíói eða í stúdíói hjá öðrum,“ segir Ragnhildur Lára. „Sumir þurfa bara tölvu þannig að við förum bara heim í sófann þeirra. Þetta er svo ólíkt líka, það er gaman að koma í heimsókn – þá einmitt kemur karakterinn í gegn,“ segir Margrét Helga. 

Tímalaus viðtöl

Í viðtölunum er sjónum beint að persónu viðmælenda, lífi og innblæstri frekar en samtímamálum. „Við pössum okkur mjög vel að þetta séu alltaf tímalaus viðtöl, við erum ekki að tala um einhverjar ákveðnar opnanir sem eru á næstunni eða einhver verkefni sem eru akkúrat í gangi þessa stundina heldur hversdagsleg samtöl við listafólk,“ segir Ragnhildur Lára. 

Hús&Hillbilly.

Tengdar fréttir

Myndlist

Á náttsloppnum í Landsbankanum

Myndlist

Leitað að lífsverki

Akureyri

Léttleikandi dauði í Listasafninu á Akureyri