Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ævi mín ómenguð

Mynd: www.flickr.com / www.flickr.com

Ævi mín ómenguð

13.11.2015 - 10:19

Höfundar

Nokkuð hefur verið rætt um játningar íslenskra rithöfunda að undanförnu. Víðsjá spurði: Er runnið upp haust játninganna? Hér má hlusta á og lesa pistil Eiríks Guðmundssonar um málið.

Haust játninganna, upp er runnið haust játninganna, eða hvað? Þessi orð haust játninganna féllu í útvarpsþætti hér á Rás eitt á dögunum. Og því þá ekki að játa, mitt haust hefur verið tiltölulega milt, ég fór til New York, Manhattan, þar var ekkert efst á baugi, nema sólin, hún bara skein. Ég keypti allt of margar bækur, fór í leikhús, sá hvítkalkaða Japani í síðum kuflum, sýningin var góð, lífið var gott. Svo kom ég heim, nokkur vindstig í kortunum, ég var kominn heim, í haust játninganna. Höldum okkur þar. Árstíðin haust játninganna vísar til nýútkominna bóka eftir Hallgrím Helgason, Jón Gnarr, og líklega mætti bæta þeim Bubba Morthens og Mikael Torfasyni við þann stutta lista, allt karlar, en látum það liggja á milli hluta, ég er ekki hingað kominn til að telja prik. Nokkur umræða hefur spunnist um þessar meintu játningar, einkum eins og þær koma fyrir í bókum Hallgríms og Jóns. Í annarri bókinni er talað um nauðgun, í hinni er skorið undan sögumanni, í bókstaflegri merkingu. Harðast og óvægnast hefur skrifað maður að nafni Guðbergur Bergsson, vanur penni og afar þekktur, maður sem margoft hefur tuktað til íslenska þjóð, og þá ekki síst, íslenska rithöfunda. Og höfundur sem líklega hefur verið öðrum höfundum duglegri við að mennta Íslendinga í fagurfræðilegum efnun. Guðbergur setti sumsé niður fótinn, skrifaði setningar sem engum hefði dottið í hug nema honum sjálfum, setningar sem engum hefði dottið í hug að setja niður á blað, hvað þá birta opinberlega, nema honum sjálfum. Guðbergur sagði meðal annars þetta í frægum og alræmdum pistli sem birtist í DV, og setti ýmislegt á hvolf: „Nú kemur hver stórfréttin á fætur annarri í jólabókaflóðinu: Hallgrími Helgasyni rithöfundi kvað hafa verið nauðgað, í nýrri bók, með þeim afleiðingum að við samningu hennar hafi einskonar sveskjusteinn (kannski í líkingu við steinbarn Laxness?) gengið niður af honum úr sálinni eða földu móðurlífi í einskonar hommaskáp í skrokknum.“ Síðan sagði Guðbergur að Hallgrímur væri „engin ljósmyndafæla heldur það sem í útlöndum er kallað myndatottari, svo þjóðin hefur drukkið í sig útlit hans. Þess vegna sagði kvikindi: Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk? Hefði ekki verið eins gott að fara upp á marglyttu og að fást við saklausa þjóhnappa hans?“ Þessi orð Guðbergs, og þá ekki síst kvikindisins, ollu töluverðu fjaðrafoki, eins og við var að búast, þarna er háðið auðvitað alveg voðalegt, og líklega komið fram af hengifluginu, sumir gengu svo langt að hafna öllu höfundarverki Guðbergs í kjölfarið, Tómasi, Tanganum, Lömuðum kennslukonum, Títu, Bogga, öllu heila galleríinu.

En höldum okkur í bili við játningar. Játningin er mikilvægur þáttur í okkar kristnu menningu, hún á rætur sínar að rekja langt aftur í aldir, og líklega alla leið aftur til Forn-Grikkja. Í kristinni menningu er gengið út frá því að sjálfið búi yfir háleitum sannindum, að sálin sé heimkynni sanninda sem einstaklingurinn verður að komast að, og orða, sjálfið er merkingarbær texti sem krefst stöðugrar túlkunar og eftirgrennslunar. Og játningin er mikilvægt bókmenntaform innan vestrænnar hefðar, sem er samofið okkar kristnu menningu, á rætur sínar að rekja til Ágústínusar, raunar var eldurinn þegar farinn að brenna hjá Grikkjum, sem voru óðum að uppgötva hin myrku meginlönd mannssálarinnar. Þau lönd hafa sannarlega verið könnuð í fræðum og listum allar götur síðan. 

En ágætu hlustendur, ef marka má fjölmiðlaumræðu um bókmenntir á þessu hausti játninganna, og raunar burtséð frá ætlun og ásetningi áðurnefndra höfunda, hefur játningin nú tekið á sig form stangastökksins, undir merkjum skáldævisögunnar, sem er hugtak sem menn ættu að fara sparlega með, hún snýst um það hver getur stokkið hæst, og er þá ekkert mat lagt á verk fyrrnefndra höfunda, heldur umræðuna, dagsljósið, sviðsljósið sem skín um leið og menn hafa deilt sínum dýpstu sorgum með þjóðinni. Eitthvað í menningu okkar veldur því að einn virtasti höfundur þjóðarinnar, ákveður nú, á sextugsaldri, að segja frá sárri reynslu á sínu eigin prívat sviði. Ef maður leyfir sér að fitna eins og púki eða hvert annað kvikindi á fjósbita gæti maður sagt að nú um stundir snúist allt, og ekki bara bókmenntirnar, um það að sveifla sér með sem allra mestum glæsibrag inn í sviðsljós fjölmiðlanna, með játninguna og sársaukann að vopni, undir yfirskriftinni: Hér fáið þið ævi mína ómengaða, mér hefur líka liðið illa. Einum er nauðgað í Munchen, annar missir tittlinginn á Landakoti, where do we go from there? Menn skrifa nú mögulega ekki til að bjarga höfði sínu, heldur samlagast samtíma sem hrópar á eitt og aðeins eitt, herfilegustu reynslusöguna, og hæfilegt uppþot í kjölfarið.

En aftur að téðum Guðbergi Bergssyni. Ef eitthvað má um hann segja, þá er það þetta: hann skilur muninn á skáldskap og veruleika. Í vissum skilningi snýst höfundarverk hans einum þræði um að kenna Íslendingum að skilja á milli skáldskapar og veruleika. Þegar hann skrifar hræðilegan pistil eins og þann sem birtist í DV á dögunum, og ég hef þegar vitnað til, er hann að skrifa í sömu hefðinni og hann hefur ævinlega skrifað í, og skiljanlegt að undan svíði. Það er hefð sem nær langt aftur fyrir rómantík og einstaklingshyggju sem nú hefur fyrir löngu farið með okkur fram af hengifluginu, á svo mörgum sviðum. Hefð sem nær svo miklu lengra aftur fyrir 19. öldina þegar hinn vestræni maður breyttist í einhvers konar játningaskepnu, sífellt tautandi eitthvað um eigin raunir, opinberandi sjálfan sig í sinni prívat eymd. Pistlar Guðbergs, jafn fjandsamlegir fólki af holdi og blóði, sem þeir annars kunna að virðast, verða ekki skildir nema í þessu ljósi.

„Lífið er okkar eigin hugarburður,“ sagði Auður Jónsdóttir rithöfundur í viðtali hér í Víðsjá í fyrradag.  Höfundar staðsetja sig á mörkum skáldskapar og veruleika, það er ekkert nýtt. Þeir vinna úr eigin reynslu, það er heldur ekkert nýtt. Allir hafa átt bágt, það er heldur ekkert nýtt. Bágindin geta þess vegna verið hugarburður, þótt lesandinn í fávisku sinni eins og hver önnur lömuð kennslukona heimfæri þau upp á höfundinn. Nú er krafan mögulega þessi: rithöfundurinn á að renna saman við bók sína, hann á að vera sjálfum sér líkur, bæði í viðtölum og á prenti, nýjasta bók hans á að ganga svo nærri honum sjálfum að ekkert stendur eftir og hann varla í lappirnar. Hún er ævi mín ómenguð. Ægibirta athyglinnar og einkalífsins renna saman í eitt. Höfundurinn og verk hans eru eitt, It's my life. Hann á helst að ganga svo nærri sjálfum sér að ekkert er eftir, svo mætir hann í viðtöl eins og sprungin blaðra, algerlega tæmdur, spyrillinn situr fyrir framan hann alveg gáttaður, honum dettur ekkert annað í hug en þetta: Þú hlýtur að vera algerlega úrvinda eftir að hafa komið þessu á bók! Og höfundurinn, loftlaus og aðframkominn, muldrar upp úr eins manns hljóði: Ég skrifaði bókina því hún rímar svo vel við tímana. Bókmenntirnar þrá nú flóðlýsinguna, hættan er sú að þær samlagist okkar athyglisóða samtíma í stað þess að veita viðnám, og hvernig er þá komið fyrir hugarfarinu og sálinni, svo vitnað sé í þann sem ekki má nefna. En höfum í huga að bókmenntirnar eru stærri en lúxorlamparnir sem nú skína skærast, þær munu lifa af viðtöl við Jakob Bjarnar og ritdóma Kolbrúnar Bergþórsdóttur, þær munu lifa Stundina af, Vísi, Kjarnann, og jafnvel sjálft Ríkisútvarpið, alveg örugglega Ríkisútvarpið, þær munu jafnvel lifa af næsta Kötlugos, og milljón séríslensk fjaðrafok, og þá er eins gott að menn átti sig á því, að stundum er villuljósið mest hér, stundum þar, stundum er hrævareldurinn hér, stundum þar, og það er engum hollt, allra síst rithöfundum, að eltast einvörðungu við hann. Bókmenntir eru hugarburður, og það er ekkert til, sem heitir ómenguð ævi. Haust játninganna? Og í beinu framhaldi, Winter of our discontent? Dæmi hver fyrir sig.