Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætti ekki að koma Rússum á óvart

10.04.2015 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun Norðurlandanna fimm um að efla samstarf á sviði varnarmála, vegna vaxandi ógnar frá Rússlandi, ætti ekki að koma Rússum á óvart. Þetta segir utanríkisráðherra.

 

Utanríkisráðherra Íslands og varnarmálaráðherrar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands birtu í dag sameiginlega yfirlýsingu. Þar segir að vegna framferðis Rússa í Úkraínu og aukinna hernaðarumsvifa þeirra við Eystrasalt og á Norðurslóðum hafi staða öryggismála á þessu svæði versnað, og því sé þörf sé á auknu samstarfi Norðurlandanna í varnarmálum.

„Við sjáum að Rússar auka umsvif sín nærri Norðurlöndum og við tökum því þannig að þegar Pútín lætur ófriðlega þá förum við ekki að skjálfa á beinunum. Við stöndum þá þéttar saman og eflum enn frekar samstarfið milli Norðurlandanna svo við getum sem best mætt þeim aðstæðum sem nú eru uppi,“ segir Nicolai Wammen, varnarmálaráðherra Danmerkur. 

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra segir þetta einnig yfirlýsingu um stuðning til Eystralsaltsríkjanna. „Norðurlöndin munu samræma sig meira í upplýsingagjöf, í þjálfun, æfingum og þessháttar. Þetta er yfirlýsing um að við horfum líka til vina okkar í Eystrasaltsríkjunum sem eru býsna óttaslegnir þessa dagana og hafa verið undanfarið.“

Samstarf gegn tölvuárásum 

„Við skoðum líka hvernig við getum saman mætt tölvuárásum og fjöllum því um tölvuöryggismál. Einnig fjöllum við um sameiginlegt örgyggi okkar á sjó og í lofti,“ segir Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar. „Við viljum koma á víðtækumflughersæfingum, sem við köllum Nordic Flag, á norðurhvelinu.“

Sérfræðingar á Norðurlöndum hafa í dag spáð því að Rússar kunni að taka þessa yfirlýsingu óstinnt upp. Það telja ráðherrarnir ólíklegt.

„Það ætti ekki að koma Rússum neitt á óvart varðandi breytta ásýnd í öryggismálum og varnarmálum í Evrópu, ég held að þeir geri sér nú alveg grein fyrir því að þetta sé nú alveg eðlilegt framhald af þeirra ákvörðun sem þeir tóku varðandi Krím og Úkraínu,“ segir Gunnar Bragi.