Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ætluðum ekkert að stofna þessa hljómsveit“

Mynd: EPa / EPa

„Ætluðum ekkert að stofna þessa hljómsveit“

09.06.2019 - 12:58

Höfundar

Hljómplata Sigur Rósar, Ágætis byrjun, kom út 12. júní árið 1999 og samhliða voru útgáfutónleikar í Íslensku óperunni við Ingólfsstræti það sama kvöld. Nú tuttugu árum síðar fagnar hljómsveitin afmæli plötunnar í sama húsi, með því að hlusta á endurhljóðblandaðar upptökur Rásar 2 frá téðum tónleikum.

Hljómsveitin Sigur Rós var stofnuð undir nafninu Victory Rose árið 1994 og eru stofnmeðlimir þeir Jón Þór Birgisson, gítarleikari og söngvari, Ágúst Ævar Gunnarsson trommuleikari og bassaleikarinn Georg Holm. Nafn sveitarinnar fengu þeir að láni frá þá nýfæddri systur söngvarans Jónsa, Sigurrós. Árið 1997 kom fyrsta plata Sigur Rósar út hjá Smekkleysu, Von, og það sama ár bættist Kjartan Sveinsson við tríóið. Segja mætti að tónlistin hafi færst í aðrar áttir eftir þá viðbót. Hljómplatan Ágætis byrjun kom svo út um sumarið 1999 en platan hefur ítrekað trónað á toppi lista bestu hljómplatna íslenskrar tónlistarsögu.

Í tilefni þessara tímamóta að Ágætis byrjun fagnar nú tuttugu ára afmælinu tók Ólafur Páll Gunnarsson á móti þeim Georg Holm og Kjartani Sveinssyni í Rokkland og ræddi við þá í þaula um plötuna auk þess sem þeir hlustuðu á hana saman. „Við ætluðum ekkert að stofna þessa hljómsveit, hún eiginlega bara stofnaðist. Þetta voru ég og Jónsi og Gústi, við vorum eitthvað að leika okkur saman. Við fórum í stúdíó, Fellahelli og tókum upp lag. Þegar við vorum nokkurn veginn búnir að því þá fannst okkur allt í einu að við ættum að vera hljómsveit. Þetta var lagið Fljúgðu,“ segir Georg Holm bassaleikari en lagið Fljúgðu endaði á safnplötu Smekkleysu, Smekkleysa í hálfa öld sem kom út árið 1994.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigur Rós - RÚV
Pennateikning listamannsins Gotta Bernhöft prýðir umslag Ágætis byrjunar.

Kjartan Sveinsson var ekki einn stofnmeðlima Sigur Rósar en gekk til liðs við sveitina árið 1997. Tilkoma Kjartans útvíkkaði hljóðheim sveitarinnar töluvert en hann spilaði á nánast hvað sem er þó hljómborð og píanó hafi þó verið í forgrunni. „Ég var alltaf meira sessjón leikari. Þeir voru alltaf svo mikil heilög þrenning, ég var alltaf svona auka í hálft ár,“ segir Kjartan en sagði skilið við Sigur Rós eftir fimmtán ára veru árið 2012. Georg segir að á sínum tíma að þremenningarnir hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að Kjartan yrði meðlimur sveitarinnar, þó svo að hann hafi spilað með þeim í nokkra mánuði. „Mér finnst eins og við höfum tekið svona formlega ákvörðun áður en við spiluðum þessa tónleika (í Valsheimilinu árið 1997) að þú værir kominn í hljómsveitina,“ segir Georg en er ekki viss um að Kjartani hafi verið tilkynnt þessi ákvörðun formlega. 

Kjartan vill meina að það hafi verið tilviljunum háð að hann gekk til liðs við Sigur Rós og þar hafi kunnátta hans í saxafónleik spilað inn í. „Ég kynntist Jónsa í partíi um sumarið árið 1995. Svo vorum við alltaf samferða í síðasta strætó í Mosfellsbæ, ég átti heima þar á þessum tíma. Við vorum mjög oft í sama strætóinum en töluðumst ekkert við. Svo hittumst við í partíi og ég byrjaði skömmu síðar að spila með þeim. Aðallega vegna þess að ég kunni á saxafón,“ segir Kjartan.

Ólafur Páll ásamt þeim Georg og Kjartani fara ítarlega yfir sögu hljómplötunnar Ágætis byrjunar í Rokklandi kl. 16.00 sunnudaginn og spila plötuna frá upphafi til enda. Sigur Rós mun svo fagna afmæli útgáfunnar með hlustunarpartíi í Gamla bíó á miðvikudagskvöldið 12. júní en þá eru liðin rétt tuttugu ár síðan útgáfutónleikarnir fóru fram í sama húsi (þá Íslensku óperunni). Tónleikarnir voru hljóðritaðir á Rás 2 á sínum tíma og verða þær upptökur leiknar þetta kvöld, endurhljóðblandaðar af þeim Kjartani Sveinssyni og Birgi Jóni Birgissyni hljóðmeistara hljóðversins Sundlaugarinnar í Mosfellsbæ.

Þeir Kjartan og Georg sögðu Óla Palla frá tilurð laganna en flest voru þau samin í æfingarhúsnæði þeirra í Skeifunni 7. Fyrsta lag plötunnar heiti Svefn-g-englar. „Þetta er Goggariff. Alveg pottþétt,“ segir Kjartan en Georg bætir um betur í upprifjuninni. „Ef ég man þetta rétt þá varst þú með þarna Yamaha sintha. Þú gerðir eitthvað hljóð sem hljómaði eins og kafbátur, sem við síðan fullkomnuðum þegar við tókum upp lagið,“ segir Georg. „Þetta var alltaf kallað kafbátalagið,“ bætir Kjartan við.

Hluti af viðtali Óla Palla við þá Georg Holm og Kjartan Sveinsson má heyra hér efst í fréttinni en heildin verður spiluð í þættinum Rokklandi á sunnudag kl. 16.00.