Hljómsveitin Sigur Rós var stofnuð undir nafninu Victory Rose árið 1994 og eru stofnmeðlimir þeir Jón Þór Birgisson, gítarleikari og söngvari, Ágúst Ævar Gunnarsson trommuleikari og bassaleikarinn Georg Holm. Nafn sveitarinnar fengu þeir að láni frá þá nýfæddri systur söngvarans Jónsa, Sigurrós. Árið 1997 kom fyrsta plata Sigur Rósar út hjá Smekkleysu, Von, og það sama ár bættist Kjartan Sveinsson við tríóið. Segja mætti að tónlistin hafi færst í aðrar áttir eftir þá viðbót. Hljómplatan Ágætis byrjun kom svo út um sumarið 1999 en platan hefur ítrekað trónað á toppi lista bestu hljómplatna íslenskrar tónlistarsögu.
Í tilefni þessara tímamóta að Ágætis byrjun fagnar nú tuttugu ára afmælinu tók Ólafur Páll Gunnarsson á móti þeim Georg Holm og Kjartani Sveinssyni í Rokkland og ræddi við þá í þaula um plötuna auk þess sem þeir hlustuðu á hana saman. „Við ætluðum ekkert að stofna þessa hljómsveit, hún eiginlega bara stofnaðist. Þetta voru ég og Jónsi og Gústi, við vorum eitthvað að leika okkur saman. Við fórum í stúdíó, Fellahelli og tókum upp lag. Þegar við vorum nokkurn veginn búnir að því þá fannst okkur allt í einu að við ættum að vera hljómsveit. Þetta var lagið Fljúgðu,“ segir Georg Holm bassaleikari en lagið Fljúgðu endaði á safnplötu Smekkleysu, Smekkleysa í hálfa öld sem kom út árið 1994.