Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ætlar að verja hanana sína með kjafti og klóm

28.02.2017 - 18:15
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Úrskurðarnefnd um umhverfis og auðlindamál hefur hafnað kröfu Kristjáns Inga Jónssonar, arfasala á Suður Reykjum í Mosfellsbæ, sem vildi láta ógilda ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósasvæðis um að fjarlægja beri tvo hana af lóð hans. Nágranni Kristjáns hefur kvartað undan hönunum í fjögur ár.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að Kristján Ingi hafi um nokkurt skeið haldið hænsni á fasteign sinni í Mosfellsbæ - hænur og tvo hana. 

Í mars á síðasta ári krafðist Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis að Kristján sækti um leyfi fyrir hænum sínum og fjarlægði hanana þegar í stað í samræmi við samþykkt Mosfellsbæjar um hænsahald. Áskorunin var ítrekuð um miðjan apríl og Kristjáni gefinn frestur til 28. apríl til að fjarlægja hanana. 

Heilbrigðisnefnd KJósasvæðis bókaði síðan á fundi sínum í maí að fasteign Kristjáns væri ekki skráð sem lögbýli og því bæri honum að sækja um leyfi fyrir hænunum og fjarlægja hanana.  En þessu var Kristján ekki sammála og sagði að húsið sem hýsti hænurnar og hanana væri hluti af lögbýli. 

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að ákvörðun heilbrigðisnefndar um að gera manninum að sækja um leyfi fyrir hænunum og fjarlægja hanana væri í samræmi við ákvæði samþykktar um hænsnahald og að niðurstaðan væri byggð á lögmætum og málefnalegum forsendum. 

Kristján Ingi segir í samtali við fréttastofu í dag að hann sé langt frá því sáttur með þessa niðurstöðu. Afi hans og amma hafi byggt húsið á Suður Reykjum og foreldrar hans hafi búið þarna en nú sé búið að breyta því í Reykjahvol fimm.  „Núna er ár hanans, og ég verð sextugur á þessu ári.“ Hann muni því berjast fyrir hönunum með kjafti og klóm. „Þetta er bara pólitík og valdníðsla.“ 

Hanamálið í Mosfellsbæ hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar því í lok janúar vísaði hún frá kæru nágranna Kristjáns sem vildi að hanarnir yrðu fjarlægðir þrátt fyrir kæru Kristjáns til nefndarinnar.  Nágranninn sagði  í kæru sinni að hann hafi haft ónæði af gali hana sem haldnir væru á lóð í nágrenni hans. Þeir gali allan liðlangan daginn án hlés.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV