Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætlar að tryggja sér heimsmeistaratitilinn

Mynd: Mynd/Steindi / Mynd/Steindi

Ætlar að tryggja sér heimsmeistaratitilinn

23.08.2019 - 12:21

Höfundar

Heimsmeistarakeppnin í lúftgítarleik verður haldin í Oulu í Finnlandi síðar í dag. Íslendingar eiga nú í fyrsta sinn fulltrúa í keppninni og hann lofar að koma heim með heimsmeistaratitilinn.

„Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að vera bestur í einhverju.“

Þetta segir Steinþór Hróar Steinþórsson, Steindi, sem ákvað að láta drauminn rætast með því að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í lúftgítar á Eistnaflugi í sumar. 

„Ég hélt fyrst að þarna myndi bara mæta eitthvað drukkið lið, sem myndi skrá sit eins og það væri að skrá sig í karókí. En allir sem komust á úrslitakvöldið voru búin að æfa sig mjög mikið.“

Steindi hafði greinilega gert það líka, hann stóð uppi sem sigurvegari og er núna kominn til Finnlands til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í lúftgítar, fyrstur Íslendinga.  

„Ég er með mömmu minni hérna, hún er rótarinn minn. Hún kallar sig Mama Thunder og ég kalla mig Rock Thor Jr.“ 

Nafngiftin er fengin frá Sjón, sem Steindi segir að sé upphafsmaður lúftgítarsins hér á landi, og vísar þar í lagið Luftgítar sem Sjón, í hlutverki Johnny Triumph söng með Sykurmolunum hér um árið. 

„Ég er að fara að koma heim með titilinn að miklu leyti fyrir Sjón,“ segir Steindi. 

Lúftgítarleikur er ekki ósvipaður hefðbundnum gítarleik fyrir utan eitt, þar er ekki notast við neitt hljóðfæri.

Heimsmeistarakeppnin hefst klukkan 17 að íslenskum tíma og Steindi hefur eina mínútu á sviðinu til að sannfæra dómnefndina um að hann sé verðugur heimsmeistari í faginu. 

„Ég verð klæddur í brynju, með íslenska fánann bundinn á mig eins og skykkju. Ég er að fara koma heim með þennan titil,“ fullyrðir Steindi, eða Rock Thor Jr, mögulega verðandi heimsmeistari í lúftgítar.