Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ætlar að draga tillögu Bjarkar til baka

19.09.2015 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv.is - Skjáskot
Tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur um að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael verður dregin til baka. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í samtali við fréttastofu. Dagur segir að tillagan hafi ekki verið nægilega vel undirbúin og að hann sé sjálfum sér reiður vegna málsins.

Tillögunni verði breytt þannig að það komi skýrt fram að borgin muni aðeins sniðganga vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum.

Tillagan dregin til baka
„Jú ég hef sagt að það hefði mátt vera miklu skýrar í textanum þótt að hugsunin hafi verið þar. Það er mikilvægt að koma þessu á framfæri. Ég mun leggja til við borgarráð að tillagan eins og hún liggur fyrir verði dregin til baka á meðan við höfum samráð um næstu skref og útfærslu,“ segir Dagur. Það sé mikilvægt að öll umræða um mannréttindi sé ekki misskilin. Hann segir tillöguna ekki hafa verið nægilega vel undirbúna.

„Já þetta var ekki nógu vel undirbúið. Ég hef lagt í vana minn að undirbúa stórar ákvarðanir mjög vel og vandlega. Ég skal bara viðurkenna það að ég er sjálfum mér reiður yfir því að þarna tókst ekki til eins og ég hefði viljað. Því miður.“

Viðbrögðin komu á óvart
„Ég bjóst við viðbrögðum en ekki svona miklum. Þetta eru mun meiri viðbrögð sýnist mér heldur en þegar Ísland lýsti yfir stuðningi við sjálfstæði Palestínu,“ segir Dagur, en óhætt er að segja að sammþykkt borgarstjórnar hafi vakið mikla athygli. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði ákvörðunina fráleita og að hún skaði viðskiptahagsmuni Íslands. Þá hefur Simon Wiesenthal-stofnunin ráðlaggt gyðingum að ferðast ekki til Íslands.

Hið sama gerðist í Kaupmannahöfn
„Ég átti í dag gott samtal við borgarstjórann í Kaupmannahöfn, Frank Jensen, sem hefur farið í gegnum sömu umræðu þar í borg. Það sem vakti athygli mínu í samtali við hann er að þeir lentu í því sama. Í fyrstu fréttum kom sami skilningur upp, að Kaupmannahöfn ætlaði að sniðganga allar vörur frá Ísrael, og Frank þurfti að leggja sig fram við að leiðrétta það. Bæði í fjölmiðlum og á fundum með ísraelska sendiherranum. Það er hluti af verkefninu framundan, að koma þessu skýrt til skila.“

„Ég geri ráð fyrir því að leggja framt tillögu um málið á fundi borgarráðs á fimmtudag.“