Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ætla menn að nota Björgvin sem blóraböggul?“

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski - RÚV

„Ætla menn að nota Björgvin sem blóraböggul?“

25.05.2019 - 21:10
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var tekinn tali eftir 1-0 sigur liðsins gegn Víkingi í sjöttu umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta í kvöld. Rúnar var þar spurður út í mál Björgvins Stefánssonar, sem lét umdeild ummæli falla í lýsingu á fótboltaleik á dögunum.

Björgvin lýsti leik Hauka og Þróttar í Reykjavík á fimmtudagskvöld. Þar sagði hann „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ í útsendingunni. Hann baðst fljótlega afsökunar á ummælunum en KR sendi síðar frá sér tilkynningu þar sem félagið harmaði ummælin. Málið var lagt fyrir aganefnd KSÍ og gæti Björgvin átt yfir höfði sér leikbann.

Björgvin var í byrjunarliði KR í sigri kvöldsins og spilaði fyrstu 62 mínútur leiksins. Aðspurður um hvort það hefði einhvern tíma komið til greina að halda Björgvini utan hóps í leik dagsins vegna atviksins sagði Rúnar:

„Landsliðsfyrirliðinn okkar hraunaði yfir Albaníu hér um árið og hann byrjaði næsta leik og fékk ekkert bann. Ég meina það er fullt af fólki sem hefur gert mistök. Björgvin gerir mistök. Hann áttar sig á því algjörlega um leið og biðst fyrirgefningar alveg um leið,“

Misheppnað grín

Rúnar segir ummæli Björgvins hafa verið misheppnaða tilraun til fyndni. Það hafi svo verið blásið upp í fjölmiðlum. Hann fordæmir ummælin þó og segir þau alvarleg.

„Hann segir þetta í einhverju gríni, að reyna að vera fyndinn, og það misheppnast hrapallega. Úr því varð gert mikið mál í fjölmiðlum þar sem menn eru að reyna að fá smelli,“

„Auðvitað fordæmir maður allt svona. Björgvin, okkar leikmaður, á ekki að gera svona. En hann er þarna á eigin vegum, hann er ekki í búningi KR, hann er ekki á leikskýrslu. Hann er að lýsa fyrir sitt uppeldisfélag fótboltaleik af því hann þykir hnyttinn í tilsvörum og fyndinn. Hann var að reyna það í þessu tilfelli og það misheppnast svona hrikalega. Því miður þá er þetta orðið að einhverju stóru máli og ég vona bara að því máli ljúki sem fyrst.“ segir Rúnar.

„Þetta er grafalvarlegt, við KR-ingar lítum þetta mjög alvarlegum augum. Við erum búin að ræða við Björgvin en mönnum verða á mistök í lífinu og það verður bara þá að reyna að kenna þeim aðeins hvernig lífið virkar,“

Rúnar segist ekki geta séð hvernig KSÍ geti dæmt Björgvin í bann. Hann sé búinn að biðjast afsökunar og eigi að geta haldið áfram með lífið.

„[Ef hann er dæmdur í bann] Þá kemur bara einhver annar leikmaður inn í byrjunarliðið. Það er búið að dæma í tveimur álíka málum, það var talað um aðra hluti sem voru ekkert ómerkilegri en þeir sem hann er að tala um. Það var ekkert dæmt í því, engin bönn, ekki neitt. Þannig að ég get ekki séð hvernig eigi að dæma Björgvin í bann fyrir það sem hann hefur verið að gera. Hann er búinn að biðjast afsökunar, ég endurtek það, og ég held að við verðum bara að leyfa honum að halda áfram með sitt líf,“

Á að gera blóraböggul úr KR og Björgvini?

Rúnar vitnar til atvika fyrr á tímabilinu þar sem fordómafull ummæli hafa verið látin falla. Það má gefa sér að þar sé átt við ummæli Þórarins Inga Valdimarssonar, leikmanns Stjörnunnar, í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis, þar sem hann vitnaði til geðrænna vandamála. Hins vegar sé átt við ummæli Péturs Viðarssonar, leikmanns FH, þegar hann hreytti ónotum í aðstoðardómara í leik FH og ÍA á dögunum og spurði hvort hann væri þroskaheftur.

Aðspurður um hvernig honum þyki að eigi að refsa Björgvini fyrir ummælin sagði Rúnar: „Það er aganefndar KSÍ að dæma, ég hef ekki skoðun á því, ég er ekki lögfræðimenntaður. Ég er ekki að spá í því hvað menn eigi að fá mikla refsingu fyrir það sem þeir eru að segja. Ég tala ekki um þegar þetta er sagt í fljótfærni í beinni útsendingu í lýsingu á fótboltaleik þar sem menn eru að gantast og hafa gaman, þá kannski missa menn því miður ljót orð út úr sér,“

„Eins og ég sagði áðan, landsliðsfyrirliðinn okkar, hann hraunaði yfir Albaníu um árið. Það eru tveir leikmenn í Pepsi-deildinni í sumar sem hraunuðu yfir aðra þjóðfélagshópa - Hvenær ætlum við að taka á þessu? Hvenær ætlum við að dæma einhvern? Eigum við að byrja á því núna? Eigum við að taka Björgvin núna og aflífa hann. Af hverju byrjuðum við ekki á því fyrir tveimur vikum, eða þremur vikum? Eða fyrir tveimur eða þremur árum? Þetta er alltaf spurningin,“

„Ætla menn að nota KR sem einhvern blóraböggul og Björgvin Stefánsson? Eða ætla menn bara að fara eftir því sem að undan er gengið og sleppa mönnum við leikbönn? Það er ekki mitt að dæma, það er aganefndarinnar.“ segir Rúnar.

RÚV óskaði eftir viðtali við Björgvin eftir leik kvöldsins en þeirri beiðni var hafnað.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ummæli Björgvins gætu kostað bann

Fótbolti

KR harmar ummæli Björgvins

Íþróttir

Með kynþáttaníð í beinni útsendingu