Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla ekki að minnka framboð dýraafurða

18.09.2019 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Akureyrarbær ætlar ekki að minnka framboð dýraafurða í leik- og grunnskólum bæjarins. Þetta kemur fram í bókun fræðsluráðs bæjarins um málið frá því í gær.

Ætla halda áfram á sömu braut

Í bókun fræðsluráðs segir að bærinn ætli sér að halda áfram að fylgja manneldismarkmiðum Landlæknisembættisins. Þá segir einnig að áhersla verði lögð á að kaupa íslenskar afurðir og helst staðbundna framleiðslu. 

„Á undanförnum árum hefur hlutur kjöts farið minnkandi í fæði grunn- og leikskólabarna og er nú í boði 6 sinnum (af 21 skipti) í mánuði. Þegar kjöt er í aðalrétt er þess gætt að aðrir fæðuflokkar standi börnum til boða. Grænmeti, salat og ávextir eru í boði alla daga. Ekki er á dagskrá að hætta með kjöt í mötuneytum heldur halda áfram á markaðri vegferð,“ segir í bókun ráðsins. 

Svar við áskorun grænkera

Samtök grænkera á Íslandi sendu sveitarfélögum áskorun í síðasta mánuði um að hætta alveg að bjóða dýraafurðir eða draga verulega úr framboði þeirra í mötuneytum skóla í ljósi hamfarahlýnunar.

Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna veldur kjöt- og dýraafurðaframleiðsla um 15 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.