Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ætla að láta okkur sækja málið að fullu“

Mynd með færslu
 Mynd: cc
„Gærdagurinn var ömurlegur,“ segir Kristín Anna Tryggvadóttir, dóttir Tryggva Rúnars Leifssonar, eins sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmáli, og vísar þar í að ríkið hafi hafnað bótum og krafist sýknu í máli Guðjóns Skarphéðinssonar, í gær. Það hafi þó verið jákvætt að raunveruleg viðhorf ríkisstjórnarinnar hafi loks verið opinberuð.

Málin komin misjafnlega langt á veg

Kristín segir að þau hafi lagt fram bótakröfu í málinu en ekki fengið nein svör. Það líti út fyrir að þau eigi fáa valkosti aðra en að stefna. „Þau ætla að láta okkur sækja þetta mál að fullu.“

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars Júlíussonar, áður Viðarssonar, sagði fátt annað í stöðunni en að stefna, verði ekki komin skýr mynd á málið í samningaviðræðum við Andra Árnason, settan ríkislögmann í málinu, í október. 

Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Alberts Klahn Skaftasonar, segir að mál hans sé enn í skoðun og viðræður við ríkislögmann í gangi. Ekki sé búið að stefna ríkinu að svo stöddu. Oddgeir Einarsson, verjandi í máli Sævars Marinós Ciesielski, segir að ekkert hafi gerst í þeirra málum frá því samningaviðræðum lauk í vor.

Erla Bolladóttir fékk sitt mál ekki tekið upp aftur ólíkt hinum sakborningum í málinu. Hún ætlar að stefna ríkinu til ógildingar þeirrar ákvörðunar. Nú er unnið í því, segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu og Guðjóns. Þá segir hann að mál Guðjóns verði senn afhent dómara til meðferðar.

Sýknaðir í Hæstarétti í fyrra

Hæstiréttur sýknaði Albert Klahn Skaftason, Kristján Viðar Júlíusson, Sævar Marinó Ciesielski, Tryggva Rúnar Leifsson og Guðjón Skarphéðinsson, sakborningana fimm þegar Guðmundar- og Geirfinnsmál voru tekin upp aftur þann 27. september í fyrra. 

Dómsuppsagan tók ekki langan tíma og niðurstaðan var skýr - sýkna skyldi sakborningana af öllum ákæruliðum. Ekki var fallist á að taka upp á ný mál fyrir rangar sakargiftir og því stendur sakfelling Sævars, Kristjáns og Erlu fyrir þær. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Sakborningar og aðstandendur beðnir afsökunar

Einhugur var í ríkisstjórninni um að biðja fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra þá sem átt hafa um sárt að binda vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála, afsökunar á því ranglæti sem þau hafa mátt þola, í kjölfar þess að sýknudómur féll. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði sáttanefnd sem átti að leiða viðræður og sáttaumleitanir við aðila máls og aðstandendur.

Í samtali við fréttastofu sagði Katrín að henni þætti sjálfsagt og eðlilegt að farið yrði yfir hvað væri hægt að gera til að bæta þennan skaða. „Ég vil biðja þau öll afsökunar vegna þess ranglætis sem þau voru beitt á þessum tíma. Ríkisstjórnin vill tala með skýrum hætti í þessu máli þess vegna biðjum við þau öll, fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra þá sem hafa átt um sárt að binda vegna þessa máls afsökunar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Ekki náðist sátt hjá nefndinni

Fram kom í fréttum RÚV að sáttanefnd forsætisráðherra hefði úr 600 milljónum króna að moða til handa öllum aðilum málsins. Nefndin komst ekki að samkomulagi um bætur og hætti störfum í vor. Forsætisráðherra sagði því óhjákvæmilegt og rétt að settur ríkislögmaður, Andri Árnason, tæki á öllu er varði fjárbætur í málinu.

Í kjölfar þess að sáttaviðræður báru ekki árangur stefndi Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, ríkinu til greiðslu bóta í júlí. Hann sagði að ekki hefði náðst samkomulag um hæfilegar bætur. Ekkert formlegt tilboð hafi komið fram, en sáttanefnd ríkisins hafi verið að ræða tölur á bilinu 120 til 150 milljónir króna. Þá taldi hann ekki að ríkið vildi ræða sáttir áfram.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ríkið hafnar öllum bótakröfum Guðjóns

Í fyrradag var greinargerð ríkislögmanns í málinu lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar kom fram að ríkið hafni öllum bótakröfum Guðjóns Skarphéðinssonar. Ríkið krefjist fullrar sýknu og að Guðjón greiði málskostnað, bæði á grundvelli fyrningar og eins þess, að Guðjón hafi sjálfur átt hlut í þeim aðgerðum, sem hann byggi bótakröfur sínar á. 

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, telur hann eiga skilyrðislausan bótarétt. Málið snúist um fjárhæð en ekki bótaskyldu. Aftur á móti hafi ríkið tekið upp á því að fara afturábak og reyna að berjast gegn sýknudómnum, segir Ragnar í samtali við fréttastofu. Mál Guðjóns verði senn afhent dómara til meðferðar. Dómstólar muni síðan finna sameiginlega fjárhæð í málinu. 

„Ríkið tók þá stefnu að reyna að flækja málið sem mest og varpa inn í það alls konar hlutum sem eru málinu óviðkomandi, til þess að reyna að gera það langdrægt, og fjalla um allt annað en það á að fjalla,“ sagði Ragnar í kvöldfréttum.

Ríkið tilbúið að semja um sanngjarnar bætur 

Í fréttatilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér í gær í kjölfar þess að greinargerð ríkislögmanns var lögð fram, sagði að ríkið væri tilbúið að semja um sanngjarnar bætur til þeirra sem sýknaðir voru og aðstandenda þeirra sem fallnir eru frá og afla til þess viðeigandi lagaheimildar. 

Ríkisstjórnin ætli að halda áfram að leita að slíkri lausn. Áréttað er að ríkislögmaður annist vörn í einkamálum sem höfðuð eru gegn ríkinu og hafi almennt forræði á kröfugerð og framsetningu hennar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ákvörðun um stefnu velti á samningaviðræðum

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars, sagði í samtali við fréttastofu að samningaviðræður séu í gangi við ríkislögmann. Hann segir að ákvörðun um hvort verði stefnt í málinu velti á því hvort viðræðum ljúki með sátt. Fátt annað sé í stöðunni en að stefna ef ekki verði komin skýr mynd á málið í október. Arnar hefur áður lýst því að bótakrafa Kristjáns sprengi sennilega alla skala á Íslandi, enda hafi hann setið lengst inni af þeim sakborningum sem enn lifa.

Arnar segir einnig öruggt að málin eigi aðeins að snúast um fjárhæðir, alls ekki sýknu. Nærtækara sé að krefjast lækkunar á bótakröfu. Menn geti þrasað um tölur en ekki um það hvort skuli sýkna eða ekki. Þá sé sýknukrafan einnig algjörlega á skjön við fyrri yfirlýsingar ríkisins. Hljóð og mynd fari ekki saman. Það séu innbyrðis mótsagnir.

Engin viðleitni til sáttar

Kristín Anna Tryggvadóttir, dóttir Tryggva Rúnars Leifssonar, segir að greinargerð setts ríkislögmanns frá því í fyrradag sýni hvernig ríkið hafi gengið fram í málinu og tvískinnung þess. Gærdagurinn hafi verið ömurlegur, en það hafi verið jákvætt að raunveruleg viðhorf ríkisstjórnarinnar hafi loks verið opinberuð.

Þau hafi hingað til verið þolinmóð og gefið ríkisstjórninni svigrúm, en engin viðleitni til sáttar hafi verið sýnd. Þau hafi oft hrist hausinn yfir málinu á þessu ári, enda næstum ár liðið frá því sýknudómurinn féll í Hæstarétti. 

Það sé orðið augljóst að ríkið ætli sér ekki að semja við aðstandendur og málsaðila. Ekki eigi að standa við yfirlýsingar frá ríkisstjórn og loforð forsætisráðherra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ríkið gangi fram af fullri hörku 

Ríkið gangi fram af fullri hörku og ráðist nú aftur á fólkið, sem þegar hefur verið sýknað. Það sjáist á greinargerðininni að stjórnvöld ætli sér ekki að gefa þumlung eftir. Það sé ótrúlegt að ríkið verji sig með þessum hætti á ný.

„Enginn í ríkisstjórn hefur staðið vörð um okkar mál, þau verja aðeins sig og sitt. Að þau skuli voga sér að gera svona við hann Guðjón, þar sem hann stendur einn, er ótrúlegt. Þetta er algjör skömm fyrir samfélagið. Fólk stendur á gati. Þingmenn lýsa yfir undrun. Við skiljum þetta ekki, það skilur enginn hvað er í gangi. Þau ætla að láta okkur sækja þetta mál að fullu,“ segir hún í samtali við fréttastofu. 

Fáir valkostir aðrir en að stefna

Þau hafi lagt fram bótakröfu í málinu en ekki fengið nein svör. Ekkert sé í gangi í málinu að svo stöddu eftir að sáttaviðræðum lauk í vor. Það líti út fyrir að þau eigi fáa valkosti aðra en að stefna. 

„Ríkisstjórnin hefði geta gert þetta svo vel. Þegar sýknudómur féll var þvílíkur einhugur í fólki um að ljúka málinu með sæmd og horfa fram á vegin, en þau sá illgresi í það. Maður er orðlaus og gáttaður yfir vinnubrögðum.“

Ekki búið að stefna ríkinu fyrir hönd Alberts og Sævars

Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Alberts Klahn Skaftasonar, segir að mál Alberts sé enn í skoðun og viðræður við ríkislögmann í gangi. Ekki sé búið að stefna ríkinu að svo stöddu.

Oddgeir Einarsson, verjandi í máli Sævars Marinós Ciesielski, segir að ekkert hafi gerst í þeirra málum frá því samningaviðræðum lauk í vor.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ætlar sér að stefna ríkinu

Hluti málsins, sem sem snýr að sakfellingu Erlu Bolladóttur, Kristjáns Viðars og Sævars Ciesielski, fyrir að hafa borið ranglega þær sakir á Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum, var ekki tekinn fyrir í endurupptökumálinu. Erla var því eini sakborningurinn sem fékk mál sitt ekki tekið upp að nýju.

Hún ætlar sér að stefna ríkinu til ógildingar á þeirri ákvörðun. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu, segir að nú sé unnið að því. Erla uni ekki niðurstöðunni og vilji láta reyna á hana. Hún hafi sætt gæsluvarðhaldi í rúma tvö hundruð daga án þess að henni væri sagt hvers vegna. Það varði að sjálfsögðu bótaskyldu ríkisins. 

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að forsætisráðherra hefði falið settum ríkislögmanni að taka upp mál Erlu. Ragnar segir að ekkert hafi komið fram í því enn þá.