Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætla að hittast enn einu sinni í næsta mánuði

22.08.2019 - 12:00
epaselect epa07369696 (L-R) Iranian President Hassan Rouhani, Russian President Vladimir Putin and Turkish President Recep Tayyip Erdogan shake hands during their meeting in the Black sea resort of Sochi, Russia, 14 February 2019. The leaders of Russia, Turkey and Iran hold their fourth trilateral meeting to discuss further joint steps with a view to a long-term peace settlement in Syria.  EPA-EFE/SERGEI CHIRIKOV / POOL
Hassan Rouhani, forseti Írans, Vladimir Pútín, forseti Rússlands, og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur boðað forseta Rússlands og Írans til fundar við sig í Ankara 16. september til þess að ræða stöðu mála í Sýrlandi. Þetta verður fimmti fundur leiðtoganna um málefni Sýrlands á innan við tveimur árum.

Talsmaður Tyrklandsforseta greindi frá fyrirhuguðum fundi um sama leyti og ríkisfréttastofa Sýrlands sagði frá því að sýrlenski stjórnarherinn ætlaði að gera almennum borgurum kleift að fara frá yfirráðasvæðum uppreisnarmanna í Idlib-héraði í norðvesturhluta landsins.

Opnaðar yrðu leiðir fyrir almenna borgara til að komast frá Idlib til grannhéraðsins Hama.  Sams konar yfirlýsingar hafa verið gefnar í aðdraganda stórsókn hersins gegn uppreisnarmönnum.

Ráðamönnum í Ankara er mikið í mun að koma í veg fyrir stórsókn sýrlenska hersins í Idlib, en Tyrkir hafa þar her og tólf eftirlitsstöðvar. Þeir leggja auk þess áherslu á að sýrlenskir Kúrdar treysti ekki stöðu sína við tyrknesku landamærin.

Hundruð almennra borgara hafa fallið í loftárásum sýrlenska stjórnarhersins og Rússa í Idlib undanfarna mánuði. Nýlega var greint frá því að stjórnarherinn hefði hrakið sveitir uppreisnarmanna frá bænum Khan Sheikhun í Idlib, sem hefur mikið hernaðarlegt vægi og styrkir verulega stöðu hersins.